Ekki má sofna á verðinum

Ekkert lát er á eftirspurn áls í heiminum. Nú þegar hagkerfi heimsins taka við sér á ný sér merki þess þegar á álverði, sem er um tæplega 30% hærra en á sama tíma í fyrra. Og jákvæð tíðindi tíðindi bárust frá Straumsvík með orkusamningi Isal og Landsvirkjunar.

Þegar litið er til sögunnar hefur áliðnaður á Íslandi jafnan verið traustur stólpi í íslensku hagkerfi þegar kreppir að. Ekki þarf annað en að rifja upp að álverið í Straumsvík hefur verið með sömu kennitöluna í hálfa öld – og að það réðist í 60 milljarða fjárfestingu á árunum 2010 til 2015 sem er sú stærsta í íslensku efnahagslífi frá hruni. 

 

Samkeppnishæfni til skoðnar

Samkeppnisstaða íslensks áliðnaðar hefur verið í brennidepli undanfarin misseri. Afkoman hefur verið neikvæð og á það raunar við um fleiri greinar orkusækins iðnaðar. Það gerði þessum fyrirtækjum enn erfiðara fyrir þegar markaðir féllu vegna heimsfaraldursins.

Til að bregðast við þessum vanda fékk Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra þýska greiningarfyrirtækið Fraunhofer til að vinna skýrslu um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. Niðurstaðan var sú að raforkuverðið væri ekki í öllum tilvikum samkeppnishæft og jafnframt að þróun endurgreiðslna til álvera í Evrópu á ETS-hluta raforkuverðsins ógnaði samkeppnisstöðu orkusækins iðnaðar á Íslandi.

Til þess að bregðast við gagnrýni í einum þætti skýrslunnar fékk iðnaðarráðherra Deloitte til að vinna skýrslu um flutningskostnað raforku og hefur nú lagt fram frumvarp og tillögur sem ætlað er að auka skilvirkni og hagkvæmni á íslenskum raforkumarkaði. 

 

Horfa þarf á heildarmyndina

Þegar samkeppnisstaða landa í orkusæknum iðnaði er borin saman þarf að horfa á heildarmyndina, enda er rekstrarumhverfið afar ólíkt. Í skýrslu OECD frá 2019 kom fram að ríkisstuðningur til álframleiðslu er langmestur í Kína og hefur það m.a. leitt til þess að ESB lagði tolla á innflutning tiltekinna álafurða frá Kína undir lok síðasta árs.

Í skýrslu OECD kom fram að víðast hvar í heiminum er ríkisstuðningur í einu eða öðru formi við álframleiðslu. Ekkert slíkt er uppi á teningnum hér á landi og raunar þurfa íslensku álverin að greiða fyrir losun í gegnum þátttöku sína í ETS-kerfinu, en það nær eingöngu til evrópskrar álframleiðslu. Þó er kolefnisspor álframleiðslu hagstæðara í Evrópu en víðast hvar annars staðar og hvergi minna en á Íslandi. 

 

Samkeppnishæfni ekki sjálfgefin

Ef til vill er lærdómurinn sá að ekki er hægt að ganga út frá samkeppnishæfni sem vísri og þurfa stjórnvöld stöðugt að halda vöku sinni gagnvart því rekstrarumhverfi sem þau búa fyrirtækjum í landinu. Gildir þá einu hvort horft er til orkusækins iðnaðar, sjávarútvegs, ferðaþjónustu eða fjórðu stoðarinnar hugverkaiðnaðar. Allar þessar greinar eiga í alþjóðlegri samkeppni og verðmætin sem þær skapa standa undir lífskjarasókn á Íslandi.

Nægir þar að líta til þeirrar umbyltingar sem orðið hefur hér á landi með tilkomu orkusækins iðnaðar. Fram hefur komið í greiningu Ingólfs Benders, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins, að frá því Isal hóf starfsemi árið 1969 hafi landsframleiðsla á mann vaxið að meðaltali 50% meira á Íslandi en í öðrum ríkjum OECD, en sá hagvísir er ágætur mælikvarði á lífskjör í landinu.

 

Hagkvæmara og öruggara raforkukerfi

Umbyltingin hefur náð til fleiri sviða þjóðlífsins og er enn að skapa fjölbreytt tækifæri. Nú þykir okkur sjálfsagt að öll orka sem framleidd er á Íslandi sé sjálfbær og endurnýjanleg. En það voru tíðindi þegar Jóhannes Nordal sagði á ársfundi Landsvirkjunar árið 1984 að nánast engin raforka væri framleidd lengur með olíu og að gjaldeyrissparnaður vegna þessa væri umtalsverður.  

Á þeim tíma hafði eigið fé Landsvirkjunar meira en sexfaldast að raungildi og nam um 6,6 milljörðum eða sem nam 11% aukningu á ári. Á sama tíma hafði verið lagður grunnur að afhendingaröryggi raforku hvarvetna um landið, lokið við byggðalínukerfið og með því „lagður grundvöllur sem á má byggja hagkvæmari og öruggari rekstur raforkukerfisins í framtíðinni.“

 

Tækifæri til framtíðar

En kannski munar mestu um það hér á úthjara veraldar að til urðu spennandi og vel launuð störf sem gera okkur kleift að keppa við önnur lönd um ungt og metnaðarfullt fólk. Þar hitti Jóhannes naglann á höfuðið í ræðu sinni fyrir hartnær 40 árum:

„Við skulum ekki heldur gleyma því, hver grundvöllur hefur verið lagður að áframhaldandi þróun orkumála hér á landi með þeirri verkkunnáttu og þekkingu, sem íslenzkir sérfræðingar og aðrir starfsmenn hafa öðlazt í átökum við hin stóru verkefni, sem leyst hafa verið af hendi á undanförnum árum. Á engu sviði efnahagslegra framfara eigum við betri tækifæri til þess að beita vísindalegri þekkingu til að bæta efnahag þjóðarinnar öllum Íslendingum til farsældar.“

 

Pétur Blöndal

Framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda 

(Grein sem birtist í Fréttablaðinu 3. mars 2021)

Sjá einnig