Góðu fréttirnar eru þær að eftirspurn áls fer áfram vaxandi

„Forsenda þess að hér á landi blómgist áliðnaður til langrar framtíðar er að rekstrarskilyrðin séu samkeppnishæf.“ Þannig hefst svar framkvæmdastjóra Samáls við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvaða breytingar væru æskilegar á nýju ári til að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni álvera á Íslandi. 

„Álverð ræðst á heimsmarkaði og því er ekki hægt að velta umframkostnaði út í verðið. Það er því mikilvægt að staðbundinn kostnaður sé samkeppnishæfur.

Þessu fengu Ítalir að kynnast þegar öll álframleiðsla lagðist þar niður fyrir um áratug vegna ósamkeppnishæfs raforkukostnaðar, en framleiðslan þar nam þremur milljónum tonna og var því þrefalt meiri en hér á landi.

Í nýrri orkustefnu sem kynnt var í haust er samkeppnishæfni einmitt á meðal grunngilda og eins er lögð áhersla á þjóðhagslegan ávinning, þ.e. að orkan nýtist til að ýta undir verðmætasköpun í atvinnulífinu.

Nýverið skilaði þýska greiningarfyrirtækið Fraunhofer skýrslu um alþjóðlega samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með sérstakri áherslu á raforkuverð. Þar kom fram að ekki væru allir stóriðjusamningar samkeppnishæfir, sem er áhyggjuefni, og einnig var áhyggjum lýst af samkeppnisstöðu orkusækins iðnaðar á Íslandi með hliðsjón af endurgreiðslum stjórnvalda á ETS-hluta raforkuverðsins til stóriðju í Noregi, Þýskalandi og öðrum Evrópríkjum. Ljóst er að þær endurgreiðslur fara hækkandi og grafa undan samkeppnisstöðunni hér heima.

Í kjölfarið á skýrslunni setti iðnaðarráðherra af stað vinnu við endurskoðun flutningskostnaðar raforku, en samkvæmt skýrslu Fraunhofer erum við ekki samkeppnishæf þar. Ljóst er að horfa þarf á heildarsamhengið þegar samkeppnishæfnin er metin. Þar spilar margt inn í sem ekki var til skoðunar hjá Fraunhofer, svo sem styrkjaumhverfi vegna fjárfestinga, rannsókna og þróunar, stærðarhagkvæmni og nálægð við markaði, en á öllum þessum sviðum á Ísland undir högg að sækja.

Góðu fréttirnar eru þær að eftirspurn áls fer áfram vaxandi, en léttleiki þess veldur því að það nýtist til að draga úr losun, einangrunargildið dregur úr orku- og matvælasóun og svo er hægt að endurvinna það aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Auk þess er orkan hér á landi endurnýjanleg og heildarlosun við álframleiðsluna hvergi lægri en hér á landi.“


Sjá einnig