Háskólaútibú á Austurlandi verður að veruleika

Um helgina undirritaði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, starfssamning um undirbúning stofnunar háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi. Undirritunin fór fram á Reyðarfirði og er markmið samningsins að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi. Fyrsta skrefið er að setja á laggirnar frumgreinadeild sem hefst næsta haust. 

Í fréttatilkynningunni sem mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi frá sér kemur fram að í skipulagi samningsins sé horft til þarfa og styrkleika atvinnulífs á Austurlandi. Í framhaldi af námi í frumgreinadeild verði boðið upp á grunnnám í hagnýtri iðnaðartæknifræði til B.Sc. gráðu. Það yrði í fyrsta sinn sem boðið yrði upp á tæknifræðinám utan höfuðborgarsvæðisins og er áætlað að námið, sem er 210 ECTS einingar, taki þrjú og hálft ár.

Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir í samtali við Fréttablaðið fagnaðarefni að fá nám á háskólastigi á Austurlandi eftir áralanga vinnu í rétta átt. „Þetta er afrakstur margra ára vinnu sem bæjarstjórinn sem var á undan mér byrjaði með fyrirtækjunum hér í bænum. Þetta er mikið fagnaðarerindi fyrir allt Austurland,“ sagði Karl og sagði að námsúrvalið yrði miðað að helstu starfsmöguleikunum á svæðinu.

„Við höfum til þessa ekki geta boðið upp á menntun á háskólastigi hér á Austurlandi og verður námið sérsniðið að iðnfyrirtækjunum hér, fiskvinnslufyrirtækjunum og álverinu. Þetta er hugsað í tengingu við þessar helstu atvinnugreinar okkar. Í aðdraganda þessarar niðurstöðu, þegar var verið að smíða þessa hugmynd komu fyrirtækin að þessu, hugmyndafræðilega og fjárhagslega ásamt Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði.“

Aðspurður tók Karl undir að þetta væri fyrsta skrefið í átt að háskólastofnun á Austurlandi en hann var raunsær þegar hann benti á erfiðleikana við að reka slíka stofnun á Austurlandi vegna fólksfjölda.

„Auðvitað væri frábært að hafa háskólastofnun á Austurlandi sem sinnti öllum þörfum þeirra sem búa á Austurlandi með einum eða öðrum hætti en vitum að við erum tíu þúsund og erum því raunsæ.“


Sjá einnig