Frá undirritun nýs kjarasamnings milli AFLs starfsgreinafélags, Rafiðnaðarsambands Íslands og Alcoa …
Frá undirritun nýs kjarasamnings milli AFLs starfsgreinafélags, Rafiðnaðarsambands Íslands og Alcoa Fjarðaáls sem fram fór í matsal Fjarðaáls. Í fremstu röð sitja f.v. Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, Guðný Björg Hauksdóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli og Smári Kristinsson framkvæmdastjóri rekstrarþróunar hjá Alcoa Fjarðaáli. Samninganefndin stendur þeim að. Mynd: Alcoa Fjarðaál

Segir nýjan kjarasamning bæta jafnvægi vinnu og einkalífs

Tor Arne Berg, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, kveðst ánægður með að nýr kjarasamningur hafi í dag verið undirritaður milli Fjarðaáls og AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann segir samninginn fela í sér mikla kjarabót fyrir starfsfólk álversins, auk þess sem hann bæti jafnvægi milli vinnu og einkalífs, sem sé mikilvægt fyrir fjölbreyttan vinnustað. Hér má lesa umfjöllun um málið í Austurfrétt. 

Kjarasamningarnir hafa verið lausir frá 1. mars í fyrra en samningurinn gildir afturvirkt frá þeim degi til þriggja ára. Helstu breytingarnar í honum er stytting vinnutíma og hærri laun, hvort tveggja í samræmi við lífskjarasamninginn og aðra samninga í íslenskum álverum.

Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Fjarðaáls eftir hádegi í dag. Ríkissáttasemjari hefur leitt viðræðurnar eftir áramót en þær hófust síðasta vor.

Tor Arne segir að þótt samningaferlið hafi verið langt, meðal annars út af Covid-19 faraldrinum, þá hafi samskipti við verkalýðsfélagin góð og aðkoma ríkissáttasemjara hjálpað til við að ná niðurstöðu.

Samningurinn var sendur starfsfólki í gær og hann verður kynntur nánar áður en greidd verða um hann atkvæði. Því ferli lýkur í mánuðinum.


Sjá einnig