Aðildarfyrirtækin

Framleiðsla á áli hófst á Íslandi árið 1969 þegar álver Íslenska álfélagsins (Ísal) tók til starfa. Árleg framleiðslugeta áliðnaðarins á Íslandi er nú um 850.000 tonn en til samanburðar eru árlega framleiddar tæpar 60 milljónir tonna af áli í heiminum. Hlutur Íslands í heimsframleiðslunni er því tæp 1,5%.

Fyrirtækin í áliðnaði á Íslandi eru þrjú og þar starfa liðlega 2.000 manns. Samkvæmt mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má gera ráð fyrir að starfamargfaldari áliðnaðarins sé 1,4. Þannig hafa 4.800 manns framfæri sitt af álframleiðslu á Íslandi með beinum hætti en það samsvarar um 2,4% af vinnuafli.

Þrjú álfyrirtæki eru á Íslandi:

Rio Tinto Alcan á Íslandi hf.

Rio Tinto Alcan á Íslandi er staðsett í Straumsvík og er það elsta álver landsins. Starfsmenn eru um 500; vélvirkjar, verkfræðingar, rafvirkjar, verkafólk, tæknifræðingar, málarar, skrifstofufólk, bifvélavirkjar, viðskiptafræðingar, múrarar, matreiðslumenn, rafeindavirkjar, smiðir o.fl.  Framleiðslugeta Rio Tinto Alcan á Íslandi er rúm 200 þúsund tonn. Að auki eru að jafnaði liðlega 100 starfsmenn að störfum á vegum undirverktaka á lóð félagsins.

Samningar um byggingu álvers á Íslandi voru undirritaðir árið 1966, en viðræður milli svissneska fyrirtækisins Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands höfðu þá staðið yfir í nokkur ár. Íslenska álfélagið hf. var stofnað og framkvæmdir hófust í Straumsvík. Þremur árum síðar hófst framleiðsla en verksmiðjan var formlega vígð í maí 1970. Framleiðslugeta álversins var í upphafi um 33.000 tonn á ári í 120 kerum, en síðan hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum.

Álverið í Straumsvík er rekið af Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. sem er hluti af Rio Tinto Alcan, einum stærsta álframleiðanda í heimi og alþjóðlegu námafélagi með höfuðstöðvar í London. Félagið var stofnað árið 1873 utan um koparvinnslu á Spáni.  Álsvið félagsins nefnist Rio Tinto Alcan.  Rio Tinto Alcan er stærsti álframleiðandi heims auk þess að vera leiðandi í pökkunariðnaði. Höfuðstöðvar Rio Tinto Alcan eru í Montreal í Kanada og eru starfsmenn sviðsins 24 þúsund í 27 löndum.

ISAL framleiðir hágæðaál í samræmi við óskir viðskiptavina. Fyrirtækið framleiðir fjölmargar málmblöndur í mismunandi stærðum, alls hátt í 200 mismunandi vörutegundir, sem eru fullunnar til völsunar. Álið úr Straumsvík er notað í ýmsar sérhæfðar vörutegundir, svo sem plötur fyrir byggingariðnað, prentplötur, lyfja- og snyrtivöruumbúðir og bifreiðar. Stærstu viðskiptavinir ISAL eru í Þýskalandi en fyrirtækið selur einnig ál til annarra landa.

Álframleiðsla krefst mikillar raforku. ISAL, sem er verksmiðjuheiti félagsins, notar tæplega 3.000 gígawattstundir af raforku á ári, eða um 18% af þeirri raforku sem notuð er á Íslandi. Afköst fyrirtækisins í álframleiðslu eru rúm 200 þúsund tonn á ári.

ISAL er með vottuð gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðlegu stöðlunum ISO 9001, ISO 14001 og OHSAS 18001. Markvissar stöðugar umbætur eru jafnframt ein af meginstoðum fyrirtækisins, auk þess sem unnið er að því að innleiða aðferðafræði straumlínurekstrar.

Starfsleyfi Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. var gefið út af Umhverfisstofnun þann 7. nóvember 2005 og gildir til 1. nóvember 2020. Umhverfisstofnun er jafnframt eftirlitsaðili. Fyrirtækið fellur undir fyrirtækjaflokkinn 2.1 álframleiðsla, samkvæmt fylgiskjali með reglugerð um grænt bókhald.

Norðurál ehf.

Álver Norðuráls á Grundartanga var gangsett í júní 1998 og var ársframleiðslan í upphafi 60.000 tonn og fjöldi starfsmanna 160. Framleiðslugeta Norðuráls á Grundartanga er um 300 þúsund tonn á ári, en með viðamiklu fjárfestingarverkefni upp á á annan tug milljarða er stefnt er að því að auka framleiðsluna um 50 þúsund tonn á næstu árum.

Hjá fyrirtækinu starfa um 550 manns, m.a. verkfræðingar, tæknifræðingar, viðskiptafræðingar, sálfræðingar, efnafræðingar, eðlisfræðingar, líffræðingar, tölvunarfræðingar, vélvirkjar, vélstjórar, rafvirkjar og rafsuðumenn, auk ófaglærða starfsmanna sem öðlast sérhæfingu við störf sín og nám hjá álverinu. Að auki eru að jafnaði um 60 starfsmenn á vegum undirverktaka að störfum á álverslóðinni.

Century Aluminum festi kaup á Norðuráli í apríl 2004 en áður var fyrirtækið dótturfyrirtæki Columbia Ventures Corporation (CVC) sem er í eigu Kenneth D. Peterson Jr. Century Aluminum er með höfuðstöðvar í Monterey í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Norðurál stefnir að því að reisa nýtt álver í Helguvík sem verður í fremstu röð í heiminum. Þar er ætlunin að reisa í fyrstu þrjá 90.000 tonna áfanga með möguleika á stækkun um 90 þúsund tonn síðar meir. Allur búnaður í álverinu verður samkvæmt bestu fáanlegri tækni og álverið eitt hið umhverfisvænsta í heimi. Á rekstrartíma er gert ráð fyrir að um 600 ný störf verði til í álverinu og 800 til 1000 bein afleidd störf í samfélaginu. Áætlað er að ríflega 4.000 ársverk þurfi við byggingu álversins.

Alcoa Fjarðaál sf.

Álver Alcoa Fjarðaáls sf. í Reyðarfirði tók til starfa í byrjun apríl 2007. Fjarðaál er eitt tæknilega fullkomnasta álver heims, m.a. hvað varðar mengunarvarnir.

Alcoa Fjarðaál framleiðir um 350.000 tonn af áli til útflutnings á ári. Þetta er hreint gæðaál, álblöndur, sem meðal annars eru notaðar í bifreiða- og flugvélaiðnaði og álvírar sem meðal annars eru notaðir í háspennustrengi, rafmagnskapla í húsbyggingar og fleira. Um 40% af öllum vöruflutningi frá Íslandi eru flutningar á áli. Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði er önnur stærsta höfn landsins og um hana fara 1,3 milljónir tonna af áli og aðföngum til álframleiðslu á ári.

Hjá Alcoa Fjarðaáli starfa 480 manns. Um 320 manns til viðbótar starfa við nátengd störf á álverssvæðinu. Daglega eru því að jafnaði um 800 manns þar að störfum. Um fjórðungur starfsmanna Fjarðaáls er konur sem er hærra hlutfall en í nokkru öðru álveri Alcoa. Um 34% starfsmanna eru með háskóla- eða tæknimenntun.

Alcoa Fjarðaál sf. er í eigu Alcoa, Inc. sem er einn stærsti álframleiðandi  heims með starfsstöðvar í 31 landi víðsvegar um heiminn og um 57  þúsund starfsmenn. Fyrirtækið var stofnað árið 1888 og eru höfuðstöðvar þess í Pittsburgh í Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum. Þegar álver fyrirtækisins á Reyðarfirði var reist hafði Alcoa ekki byggt nýtt álver í rúm 20 ár.  Ekkert var til sparað til að það gæti orðið eitt fullkomnasta álver heims.


Sjá einnig