Í hvað fer ál sem framleitt er á Íslandi?

Framleiðsla áls hófst á Íslandi árið 1969 með álverinu í Straumsvík. Árið 1998 hóf Norðurál starfsemi á Grundartanga og Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði hóf framleiðslu árið 2007. Samanlögð ársframleiðsla álveranna þriggja nam rúmum 859 þúsund tonn árið 2019. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig álframleiðsla hefur þróast frá því álverið í Straumsvík hóf starfsemi árið 1969. 

Línurit: Útflutningur áls og álafurða 1969-2016

Það ál sem framleitt er á Íslandi er að uppistöðu til flutt til Evrópusambandsins. Öll álverin framleiða virðisaukandi vöru af ýmsum toga og er ál því áframunnið á Íslandi.  

Álverið í Straumsvík, Isal eða Rio Tinto á Íslandi, flytur ál til fjölmargra landa, þ.e. Frakklands, Bretlands, Hollands, Þýskalands, Sviss, Ungverjalands, Tékklands, Ítalíu, Svíþjóðar, Ástralíu, Slóvakíu, Belgíu, Póllands, Spánar og Portúgal. Álið frá Straumsvík er meðal annars notað í framleiðslu Audi-bifreiða. Isal framleiðir sívalar álstangir með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini, en samsetning þeirra fer eftir því í hvað álið er notað, svo sem álpappír, lyfjaumbúðir, húsklæðningar eða bíla. 

Alcoa Fjarðaál framleiðir tæp 950 tonn á sólarhring. Það fer frá Reyðarfirði til Rotterdam í Hollandi og þaðan í dreifingu til Evrópulanda, mest til Þýskalands. Um fjórðungur framleiðslunnar er fullunnir álvírar fyrir háspennustrengi. Gert er ráð fyrir því að um 90.000 tonn af álvír séu send á erlenda markaði árlega. Fjarðaál framleiðir einnig hreint ál og álblöndur sem fara til frekari vinnslu á meginlandi Evrópu, m.a. til bílaframleiðslu og í önnur samgöngutæki. Ekkert annað iðnfyrirtæki landsins flytur út meira vörumagn.

Norðurál framleiðir hreint ál og einnig álblöndur. Ál frá Norðuráli er selt til Rotterdam og fer þaðan í dreifingu til annarra Evrópulanda. Það er meðal annars notað í framleiðslu Mercedes Benz bifreiða, eins og fræðast má um hér, og í hluti fyrir bifreiðar eins og felgur. Þá sér Norðurál Málmsteypunni Hellu fyrir áli til sinnar framleiðslu, en nánar má lesa um það fyrirtæki hér.  

Á heimasíðu Samáls má meðal annars fræðast um sögu málmsins, framleiðsluferlið, afurðirnar og heimsmarkaðinn.


Sjá einnig