Fjölmennt var á ársfundi Samáls, fróðleg erindi, netagerð og loks var kynnt sýningin Lífið í þorpinu…
Fjölmennt var á ársfundi Samáls, fróðleg erindi, netagerð og loks var kynnt sýningin Lífið í þorpinu.

Græn vegferð í áliðnaði

„Græn vegferð í áliðnaði“ var yfirskrift ársfundar Samáls 2022 sem haldinn var í Kaldalóni í Hörpu að morgni 31. maí. Fundurinn var vel sóttur sem endranær og var um fjallað stöðu og horfur í áliðnaði og leiðina að kolefnishlutleysi fyrir íslensk álver. Hér má sjá stutta samantekt frá fundinum. 

Innlendur kostnaður 123 milljarðar

Útflutningstekjur vegna álframleiðslu náðu nýjum hæðum og námu hátt í 300 milljörðum eða um fjórðungi gjaldeyristekna þjóðarbúsins, að því er fram kom í máli Einars Þorsteinssonar, stjórnarformanns Samáls, en hér má sjá ræðu hans. Þá hefur innlendur kostnaður álvera aldrei verið hærri eða um 123 milljarðar.

„Þegar horft er yfir síðasta ár, þá er einn lærdómurinn sá, að þegar vel gengur í áliðnaði, þá gengur vel í orkugeiranum. Ef horft er til meðalverðs raforku til iðnaðar í fyrra má áætla að álverin hafi keypt raforku  af íslenskum orkufyrirtækjum ásamt orkuflutningi fyrir um 62 milljarða. Orkufyrirtækin skiluðu miklum hagnaði og fyrsti ársfjórðungur þessa árs gefur góð fyrirheit. Þar vegur álverðstengingin þungt, en í henni kristallast að hagsmunir liggja saman, ekki bara þegar vel gengur, heldur einnig þegar gefur á bátinn.“

Af hverju þrjú álver? 

„Ég ætla að fá að hefja erindi mitt hér í dag sem stjórnmálamaður, sem hefur ítrekað og oft þurft að útskýra fyrir ungu fólki af hverju við erum með þrjú stór álvera á Íslandi,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og má sjá ræðu hennar hér. „Af hverju við notum orkuna í þetta en ekki eitthvað annað og jafnvel hvort það þurfi í raun alla þá orku sem við erum að nýta. Þetta eru allt sanngjarnar og málefnalegar spurningar sem brenna á fólki á öllum aldri.“

Áslaug Arna hélt áfram: „Í þessari umræðu velti ég því upp hvernig við eigum að búa til rafbíla, sólarsellur og vindmyllur, sem jú sama fólk er að kalla eftir. Þá snýst nefnilega umræðan hratt. Ætlum við að kaupa og nota ál sem er óumhverfisvænt eða ætlum við að leiða heiminn í þessu eins og svo mörgu öðru og vera með umhverfisvænsta ál í heimi. Þar er í raun spurningin sem við ættum að vera að spyrja okkur hér á landi og ég held að þeirri spurningu sé svarað hér í yfirskrift fundarins um þá grænu vegferð sem áliðnaðurinn á og að við séum nú þegar leiðandi á heimsvísu.“

Farsæl uppbygging í þágu þjóðar 

Lögð er mikil áhersla á það hjá Landsvirkjun að styðja við vöxt og framþróun núverandi stórnotenda, sagði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjun í erindi sínu, sem bar yfirskriftina „Farsæl uppbygging í þágu þjóðar“ og finna má hér. Hann sagði það meðal annars koma fram í verkefnum á borð við nýja steypuskála í Straumsvík og hjá Norðuráli og straumhækkunum.

Hann svaraði þeirri gagnrýni sem kæmi fram hjá sumum, að í stað þess að virkja væri bara hægt að loka einu álveri. „Í raun og veru væri það mjög röng ákvörðun og ekki framkvæmanleg. Í fyrsta lagi út frá loftslagsmálum. Ef við myndum loka álveri hér til að knýja fram orkuskipti, hvort sem álverin myndu þá flytja til Kína eða annað þar sem væri notað jarðefnaeldsneyti, þá væru heildaráhrifin á loftslagsmálin neikvæð. Út frá efnahagsmálum er þetta traust atvinnugrein sem skapar útflutningstekjur í gegnum efnahagskreppur og stendur mjög sterkt fyrir samfélagið. Þannig að það væri mjög slæmt efnahagslega. Og samfélagslega skapar þetta hálaunastörf, eins og við sáum hjá Einari, á stöðum þar sem fyrirtækin eru mikilvægir atvinnurekendur. Þannig að hvort sem við horfum á umhverfismál, samfélagsmál eða efnahagsmál, þá væri það mjög óskynsamlegt.“

Markaðshorfur á óvissutímum

Óvissa er mikil til skamms tíma út af Úkraínustríðinu og hættu á refsiaðgerðum gegn Rússum, en til lengri tíma er ljóst að eftispurn mun aukast eftir grænu og kolefnislágu áli, að sögn Joseph Cherrez hjá greiningarfyrirtækinu CRU og má sjá erindið hér. „Ætli við endum ekki á spurningu,“ sagði hann. „Er þetta tækifærið fyrir Ísland, að breyta viðhorfi sínu og útvega meira grænt ál... við sjáum merki þess að nú þegar sé grænt ál farið að skila hærra verði.“  

Getum verið í fararbroddi 

„Íslendingar taka því oft sem sjálfsögðum hlut að raforkukerfið okkar byggist upp á endurnýjanlegri orku,“ sagði Guðrún Sævarsdóttir dósent við Háskólann í Reykjavík, sem fjallaði um leiðina að kolefnishlutleysi í erindi sínu, sem sjá má hér. „En í heiminum þá er orkunotkun 85% af jarðefnaeldsneyti árið 2019, sem er lítil breyting frá 2000 þrátt fyrir alla þessa áherslu á uppbyggingu sólarorku- og vindorkuvera.“

Hún fór yfir ólíkar leiðir til kolefnishlutleysis í álverum og kísilverum, en allar eiga þær sameiginlegt að tæknin er enn í þróun, og lagði áherslu á að Ísland gæti verið í fararbroddi ef allir legðust á eitt, atvinnulífið, stjórnvöld og rannsóknarsamfélagið. 

Lífið í þorpinu

Samhliða ársfundinum var kynnt til sögunnar sýningin Lífið í þorpinu, en þar eru sagðar sögur 21 starfsmanns í álverum, jafnt af þátttöku þeirra í samfélaginu í álverum sem líkja má við þorp og eins fjölskyldulífið og áhugamálin utan vinnu. Hér má sjá Pétur Blöndal framkvæmdastjóra Samáls leiða fólk inn í Lífið í þorpinu í lok ársfundar. 

Fundarstjóri var Sólveig Bergmann, yfirmaður samskiptasviðs Norðuráls. Að venju var boðið upp á morgunverð fyrir ársfund og netagerð að honum loknum og sköpuðust líflegar umræður.

Sjá einnig