Hversu margir hafa atvinnu af áliðnaði?

Fjöldi stöðugilda hjá álverum á Íslandi árið 2021 var 1.503 og um 409 manns voru í föstu starfi á vegum verktaka- og þjónustufyrirtækja á álverssvæðunum.

Samkvæmt mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (s. 20) má gera ráð fyrir að starfamargfaldari áliðnaðarins sé 2,43. 

Þannig höfðu liðlega 4.600 manns framfæri sitt af álframleiðslu með beinum hætti árið 2020 eða um 2,4% af starfandi fólki í landinu (um 192 þúsund voru starfandi á 3. ársfjórðungi 2020 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands). 

Í sambærilegri skýrslu sem unnin var af Háskóla Suður-Karólínu fyrir álver Century Aluminum var starfamargfaldarinn metinn enn hærri eða 2,6. Niðurstaðan þar eins og hér var sú að í álverinu væru fjölbreytt og hátt launuð störf. 

Álver á Íslandi kaupa vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja á ári hverju og námu þau viðskipti um 24 milljörðum árið 2020. Að stærstum hluta fer þessi upphæð í laun til starfsmanna hjá umræddum fyrirtækjum.

Laun voru borin saman í ólíkum atvinnugreinum í Morgunkorni Arion banka 12. janúar 2016 og á samanburðurinn við um árið 2014.

 

Meðalmánaðarlaun og fjöldi launþega

Samanburð á launum eftir starfsgreinum má finna í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2009 sem bar yfirskriftina Áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf:

„Í gegnum tíðina hafa álver á Íslandi almennt greitt hærri laun en bundin eru í almennum kjarasamningum og álver hafa verið eftirsóttir vinnustaðir. Álverin hafa þannig haft tiltölulega greiðan aðgang að vinnuafli og þeim hefur jafnframt haldist vel á starfsfólki sínu.“

Fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar frá 2012 um beint og óbeint framlag áliðnaðar til landsframleiðslu (s. 20) að álverin á Íslandi hafi lengi verið eftirsóttir vinnustaðir. „Ein helsta ástæða þess er talin vera sú að þau greiða hærri laun en almennir kjarasamningar kveða á um. Gróflega má ætla að munað geti í kringum 30-50% á meðallaunum starfsmanna í áliðnaði og starfsmanna á almennum markaði. Í þessu mati er þó ekki tekið fullt tillit til vaktavinnuálags á almennum markaði.“ 

Starfsfólk í orkuiðnaði hefur hátt þekkingarstig. Árið 2006 voru unnin 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra hjá íslenskum orku- og veitufyrirtækjum, þar af 500 ársverk verk- og tæknifræðinga, og tæp 500 ársverk iðnmenntaðra, samkvæmt upplýsingum frá Samorku. Í stóriðju er svipaða sögu að segja, þar sem um 40% starfsfólksins er með háskóla- eða tæknimenntun. Loks starfa hundruð sérfræðinga í verkfræðistofum og víðar við að þjónusta þessi fyrirtæki.

Öll álverin standa fyrir viðamiklu starfi í fræðslu- og menntunarmálum. Þar ber metnaðarfullt stóriðjunám hæst, sem felst í grunnnámi og framhaldsnámi. Fræðslustundirnar skipta tugum þúsunda á hverju ári – hjá hverju álveri. Nánar er fjallað um fjölbreyttar leiðir á heimasíðum álveranna sjálfra.

Fræðslustarf Rio Tinto

Fræðslustarf Norðuráls 

Fræðslustarf Alcoa Fjarðaáls 

Sjá einnig