Alúfónn verður í fyrsta skipti á sviðinu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á Myrkum músíkdögum í kvöld.…
Alúfónn verður í fyrsta skipti á sviðinu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á Myrkum músíkdögum í kvöld.

Alúfónn í verki Áskels Mássonar á Myrkum músíkdögum

Verkið Capriccio eftir Áskel Másson er eitt af fimm glæsilegum og gagnólíkum verkum á efnisskrá Myrkra músíkdaga í kvöld. Í verkinu hljómar óvenjulegt hljóðfæri, alúfónn, en Samál styrkti Sinfóníuhljómsveit Íslands til kaupa á þessu fallega hljóðfæri úr áli í vor sem leið. Verk Áskels er að öðru leyti samið fyrir darabuka, sem er bikartromma ættuð frá Tyrklandi og Austurlöndum nær, en Áskell hefur á löngum ferli þróað ákveðna leiktækni á trommuna og bregður sér hér í hlutverk einleikarans.  

Á tónleikunum verður einnig flutt verk Hauks Tómassonar, Hún róar mig, endurtekningin, sækir innblástur í verk japönsku listakonunnar Yayoi Kusama, sem nýtur mikillar hylli fyrir litrík og þráhyggjukennd verk sín.

Pons Papilloma eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur er samið að beiðni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og segir hún að það sé „úrvinnsla og kortlagning á áfalli“.

Þá verður flutt verk Gunnars Andreasar Kristinssonar, Flekar, sem tónskáldið segir að sé „samsett úr tónmössum sem mætast eða skarast líkt og jarðflekar, með tilheyrandi núningi og spennumyndun“.

Hljómsveitarverk Kjartans Ólafssonar, Mar, er tileinkað minningu finnska tónskáldsins Einojuhani Rautavaara.

Sjá einnig