Breytum áskorunum í tækifæri

Í áskorunum felast tækifæri. Tækifæri til lausnamyndunar. Tækifæri til sköpunar. Það hefur verið grunnstefið í starfi Álklasans sem stofnað var til árið 2015. Óhætt er að segja að áskoranirnar séu krefjandi og áhugaverðar sem orkusækinn iðnaður stendur frammi fyrir og Álklasinn er farvegur fyrir samstarf á því sviði, en verkefni á sviði umhverfismála, tæknilausna, orkunýtingar og starfsánægju verða í framlínunni á Nýsköpunarmóti Álklasans sem haldið verður í Háskólanum í Reykjavík í dag.

Áskoranirnar felast meðal annars í því að draga úr losun og minnka sóun, auka hagkvæmni framleiðslu og þróa nýjar tæknilausnir. Stöðugt er unnið að því að breyta áskorunum í tækifæri og koma með lausnir á vandamálum. Álklasinn stendur saman af hátt í 40 fyrirtækjum og stofnunum í orkusæknum iðnaði, en innan hans eru ekki aðeins álver, kísilver og orkufyrirtæki, heldur einnig fyrirtæki úr allri virðiskeðju álframleiðslu, háskólar og rannsóknarstofnanir.

Sprotafyrirtæki komast á legg

Óhætt er að segja að gróskan hafi aldrei verið meiri í Álklasanum og má nefna nokkur sprotafyrirtæki sem dæmi um það. DTE hefur þróað nýstárlega tækni sem notar leysigeisla til gæðaeftirlits í málmframleiðslu, Gerosion vinnur meðal annars að verðmætasköpun úr iðnaðarúrgangi og Álvit er annað nýsköpunarfyrirtæki sem stendur að rannsóknarverkefni á nýjum umhverfisvænum kragasalla fyrir áliðnaðinn á Íslandi. Álklasinn veitir einmitt hvatningarviðurkenningar fyrir framúrskarandi nemendaverkefni á Nýsköpunarmótinu og starfrækir hugmyndagátt, þar sem nemendur geta unnið verkefni og tengst fyrirtækjum á þessu sviði.

Innblástur frá Trimet

Meginland Evrópu stendur nú frammi fyrir miklum áskorunum í orkumálum. Einstaklingar og fyrirtæki leggjast nú á eitt við að greiða úr þeim málum á sem farsælastan hátt og eru álver í Þýskalandi engin undantekning. Á viðburðinum í dag má einmitt hlýða á Roman Düssel, deildarstjóra rafgreiningar í þýska álfyrirtækinu Trimet segja frá því hvernig það mætir þeim áskorunum, en Trimet hefur meðal annars unnið með íslenska fyrirtækinu Arctus í þróun kolefnislausra skauta, sem myndu nánast þurrka út losun frá álverum.

Betri nýting hráefna og tæknilausnir

Sífellt verður mikilvægara að nýta hráefni framleiðslu sem best, og oft sannast máltækið að eins manns rusl sé annars fjársjóður. Þetta endurspeglast í þeim ýmsu verkefnum sem fyrirtæki og stofnanir innan Álklasans taka sér fyrir hendur, þar sem verðmæti verða til úr úrgangsefnum, og orka til stóriðju er nýtt á sem hagkvæmastan hátt til þess að jafna út álagið á raforkukerfið.

Ál má nota til ýmissa verka, eins og í rafhlöður sem sífellt verða mikilvægari í orkuskiptunum, nú eða í vetnisframleiðslu. Íslenskt hugvit og nálægð þess við iðnaðinn er grunnur að lausnum sem auka verðmæti afurða og bæta hag starfsfólks. Áliðnaður er enn ungur á Íslandi og ræturnar eru stöðugt að vaxa og styrkjast – þar verða hugvit og nýsköpun í öndvegi.

Dagur Ingi Ólafsson

klasastjóri Álklasans

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2023

Sjá einnig