Í hvað fer ál sem framleitt er á Íslandi?

Framleiðsla áls hófst á Íslandi árið 1969 með álverinu í Straumsvík. Árið 1998 hóf Norðurál starfsemi á Grundartanga og Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði hóf framleiðslu árið 2007. Samanlögð ársframleiðsla álveranna þriggja nam rúmum 865 þúsund tonnum af málmblöndum úr steypuskála árið 2022, þar af voru 840 þúsund tonn af áli úr kerskála. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig álframleiðsla hefur þróast frá því álverið í Straumsvík hóf starfsemi árið 1969. 

Það ál sem framleitt er á Íslandi er að uppistöðu til flutt til Evrópusambandsins. Öll álverin framleiða virðisaukandi vöru af ýmsum toga og er stöðugt verið að stíga lengra í áframvinnslu á Íslandi.  

Álverið í Straumsvík, Isal eða Rio Tinto á Íslandi, flytur ál til fjölmargra landa, þ.e. Frakklands, Bretlands, Hollands, Þýskalands, Sviss, Ungverjalands, Tékklands, Ítalíu, Svíþjóðar, Ástralíu, Slóvakíu, Belgíu, Póllands, Spánar og Portúgal. Álið frá Straumsvík er meðal annars notað í framleiðslu Audi-bifreiða. Isal framleiðir sívalar álstangir með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini, en samsetning þeirra fer eftir því í hvað álið er notað, svo sem álpappír, lyfjaumbúðir, húsklæðningar eða bíla. 

Alcoa Fjarðaál framleiðir tæp 950 tonn á sólarhring. Það fer frá Reyðarfirði til Rotterdam í Hollandi og þaðan í dreifingu til Evrópulanda, mest til Þýskalands. Um fjórðungur framleiðslunnar er fullunnir álvírar fyrir háspennustrengi. Gert er ráð fyrir því að um 90.000 tonn af álvír séu send á erlenda markaði árlega. Fjarðaál framleiðir einnig hreint ál og álblöndur sem fara til frekari vinnslu á meginlandi Evrópu, m.a. til bílaframleiðslu og í önnur samgöngutæki. Ekkert annað iðnfyrirtæki landsins flytur út meira vörumagn.

Norðurál framleiðir hreint ál og einnig álblöndur. Ál frá Norðuráli er selt til Rotterdam og fer þaðan í dreifingu til annarra Evrópulanda. Það er meðal annars notað í framleiðslu Mercedes Benz bifreiða, eins og fræðast má um hér, og íhluti fyrir bifreiðar eins og felgur. Þá sér Norðurál Málmsteypunni Hellu fyrir áli til sinnar framleiðslu, en nánar má lesa um það fyrirtæki hér. Norðurál lýkur við fjárfestingarverkefni í nýjum steypuskála vorið 2024 fyrir um 17 milljarða sem gerir fyrirtækinu kleift að fara lengra í virðisaukandi framleiðslu.  

Á heimasíðu Samáls má meðal annars fræðast um sögu málmsins, framleiðsluferlið, afurðirnar og heimsmarkaðinn.

Sjá einnig