Samþykktir Samtaka álframleiðenda á Íslandi

1. grein

Samtök álframleiðenda á Íslandi (SAMÁL) eru samtök íslenskra álframleiðenda og eru málsvari álframleiðenda gagnvart almenningi, stjórnvöldum, fjölmiðlum, viðskiptasamfélaginu, menntasamfélaginu og öðrum hagsmunaaðilum. 

2. grein

Aðilar að Samtökum álframleiðenda geta orðið allir íslenskir álframleiðendur enda fullnægi þeir skilyrðum samþykkta þessara. Stofnfélagar SAMÁLS eru þrjú álframleiðslufyrirtæki, Alcan á Íslandi, Alcoa á Íslandi og Norðurál.

Samtök álframleiðenda eru aðilar að Samtökum iðnaðarins og félagsmenn SAMÁLS skulu allir vera aðilar að Samtökum iðnaðarins.

Ákveði félagsmaður að segja sig úr samtökunum skal tilkynning þess efnis hafa borist skrifstofu samtakanna eigi síðar en 30. júní. Tekur úrsögn þá gildi í upphafi næsta almanaksárs.

Samtök álframleiðenda  geta með ákvörðun stjórnar tekið þátt í alþjóðlegum samtökum áliðnaðarins til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og fylgjast með nýjungum og framþróun í greininni.

3. grein

Samtök álframleiðenda munu sinna framfaramálum og sameiginlegum verkefnum áliðnaðarins og finna á þeim lausn heildinni til heilla.

Samtök álframleiðenda munu hins vegar ekki koma fram fyrir hönd álframleiðenda við samninga um viðskiptaskilmála sem álframleiðendur njóta hér á landi.

Samtök álframleiðenda munu gæta þess sérstaklega í störfum sínum að fjalla ekki um nein málefni sem gætu með nokkrum hætti farið á svig við samkeppislög eða önnur lög eða reglur.

4. grein

Helstu verkefni Samtaka álframleiðenda, eru:

  1. Hagsmunamál.  Samtök álframleiðenda gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna á innlendum vettvangi.
  2. Kynningarmál.  Samtök álframleiðenda standa vörð um ímynd og hagsmuni álframleiðslu hér á landi.  Auk þess eflir félagið upplýsingastreymi og fræðslu til samfélagsins, yfirvalda og athafnalífsins um málefni og hagsmuni áliðnaðarins, sem er meðal helstu atvinnugreina þjóðarinnar.  Félagið vinnur einnig að aukinni fræðslu og framþróun í menntun starfsfólks og verðandi starfsfólks í áliðnaði, með það að markmiði að Ísland verði meðal fremstu ríkja í menntamálum áliðnaðarins. Auk þess  vinnur félagið að því að vekja athygli á þeirri nýsköpun sem af áliðnaðinum hlýst og örva frekari þróun áliðnaðar og tengdrar starfsemi.
  3. Umhverfismál. Samtök álframleiðenda vinna að framþróun á sviði umhverfismála og sjálfbærni. Jafnframt aflar félagið og miðlar upplýsingum um sérstöðu áliðnaðarins á Íslandi þegar kemur að umhverfismálum. Félagið leitast við að eiga traust samskipti við þá sem láta sig umhverfismál varða, bæði stofnanir og félagasamtök og vinnur  að því að efla hugmyndir um sjálfbærni í greininni.
  4. Öryggis- og heilbrigðismál.  Samtök álframleiðenda vinna að frekari framþróun öryggismála í íslenskum áliðnaði og að aukinni meðvitund starfsfólks í greininni um heilsu- og vinnuvernd.  Auk þess hefur félagið samstarf við yfirvöld og opinberar stofnanir um fræðslu í heilbrigðismálum og heilsueflingu.

5. grein

Framkvæmdastjóri sinnir daglegum rekstri Samtaka álframleiðenda.

Framkvæmdastjóri sinnir störfum sínum í samráði við stjórn samtakanna eða aðra þá starfsmenn sem stjórn þeirra tilnefnir honum til ráðgjafar og samstarfs. Stjórn  SAMÁLS  ræður framkvæmdastjóra til starfa. Skrifstofa Samtaka álframleiðenda hefur aðsetur hjá Samtökum iðnaðarins í Reykjavík. 

6. grein

Stjórn Samtaka álframleiðenda skipa þrír stjórnarmenn og þrír varamenn sem skiptast jafnt á milli álfyrirtækjanna þriggja.  Aðalmenn í stjórn skulu skipaðir forstjórum félaganna þriggja nema annað sé ákveðið. Stjórnarformennska færist milli álfyrirtækjanna árlega. Ákvarðanir stjórnar skulu teknar samhljóða af stofnfélögum. Fjölgi aðildarfyrirtækjum skal endurskoða skipan stjórnar.

7. grein

Aðalfund skal halda fyrir maílok ár hvert. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum Samtaka álframleiðenda. Til aðalfundar skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti, með minnst 7 daga fyrirvara. 

8. grein

Kostnaður við rekstur SAMÁLS skiptist þannig milli álframleiðenda: Helmingur kostnaðar skiptist jafnt milli fyrirtækjanna.  Hinn helmingurinn skiptist milli þeirra í hlutfalli við álframleiðslu þeirra í tonnum talið. 

9. grein

Ákvörðun um slit félags verður tekin aðalfundi eða almennum félagsfundi sem boðað hefur verið til með minnst 7 daga fyrirvara. Ákvörðun um slit skal samþykkt með minnst 2/3 hlutum atkvæða. Fundur sem tekur ákvörðun um slit félagsins skal jafnframt taka ákvörðun um ráðstöfun eigna eða greiðslu skulda í samræmi við ákvæði laga um slit félagasamtaka.

Þannig samþykkt á stofnfundi þann 7. júlí 2010.

Sjá einnig