Ál: Einstakt til endurvinnslu
Ál: Einstakt til endurvinnslu

Hversu mikið er endurunnið af áli?

Um 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum er enn í notkun, eins og fræðast má um á heimasíðu World Aluminium. Ál hefur þann einstaka kost að það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Fyrir vikið fellur það undir skilgreiningu Metal Packaging Europe á varanlegu efni eða „permanent material“. Í því felst að ekki er talað um „neyslu“ áls, heldur notkun, þar sem það má nota aftur og aftur.  

Það er staðreynd að ál er á meðal þeirra málma sem eru mest endurunnir. Þess vegna er stundum talað um ál sem „grænan málm“. Í skýrslu SÞ frá 2011 kemur fram að af 60 málmtegundum voru aðeins 18 með endurvinnsluhlutfall yfir 50% og er álið þeirra á meðal. Til marks um það má nefna að í Evrópu fer um 90% af öllu áli til endurvinnslu sem notað er í byggingariðnaði og samgöngum, eins og lesa má um á heimasíðu Evrópsku álsamtakanna. 

Drykkjardósir úr áli eru þær umbúðir sem mest eru endurunnar í heiminum. Í Evrópu er endurvinnsluhlutfallið 75%. Í Bandaríkjunum er það um 65% sem þýðir að 57 milljarðar áldósa eru endurunnar og eru áldósir endurunnar í mun meira mæli en drykkjarumbúðir úr gleri eða plasti, en nánar má lesa um það hér. Á Íslandi eru yfir 90% allra drykkjardósa úr áli endurunnar. 

Það varðar einnig miklu að tekist hefur að loka hringnum, þannig að notaðar áldósir eru almennt nýttar til framleiðslu á nýjum – og er talað um að álið skili sér aftur í búðarhillur á aðeins sex vikum, eins og fræðast má um hér. Hlutfall endurunnins áls í áldósum er að jafnaði um 70% eða þrefalt það sem við á um gler og plast. 

Til að endurvinna ál þarf einungis um 5% af orkunni sem fór í að framleiða það upphaflega. Þar sem endurunnið ál er svo gott sem nýtt, þá helst það hátt í verði og í því felst fjárhagslegur hvati fyrir endurvinnsluna. Það er þessi fjárhagslegi ávinningur sem gerir fjölmörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum í endurvinnslugeiranum í Evrópu kleift að standa á eigin fótum – og stendur í raun straum af endurvinnslu á öðrum efnum. Fræðast má um það í skýrslu Evrópsku álsamtakanna um endurvinnslu í Evrópu, en á heimasíðu Samáls er þýdd útgáfa af henni. 

Þar kemur fram að 10,5 milljónir tonna af áli voru endurunnin í Evrópu árið 2014 og væri það nægur efniviður í 63 þúsund farþegaþotur, að því er fram kemur í útgáfu Evrópsku álsamtakanna. Þegar horft er til þeirrar orku sem sparast við þá endurvinnslu jafngildir það því að farþegaþota fljúgi 46 þúsund ferðir umhverfis jörðina. Almennt er losun við álframleiðslu ekki mest frá álverum heldur orkuverum sem knýja álverin. Í Kína er til að mynda yfir 80% af orkunni sem notuð er til álframleiðslu sótt í kol. Það þarf því vart að orðlengja hversu orkusparnaðurinn við endurvinnslu áls dregur mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  

Hér á landi hafa álver stigið stórt skref með endurvinnslu álgjalls sem til fellur í framleiðsluferlinu. Alur álvinnsla á Grundartanga tekur við álgjalli sem til fellur hjá Isal og Norðuráli og er árleg framleiðsla um 2.500 tonn af áli úr um 7 þúsund tonnum af álgjalli. Álgjall sem til fellur hjá Fjarðaáli er flutt út til endurvinnslu. Endurnýting áls sem til fellur í framleiðsluferlinu er hringrásarferli sem mörg fyrirtæki leggja áherslu á, svo sem Össur sem starfrækir stærsta renniverkstæði áls á Íslandi. Þá hefur ál verið  endurunnið hjá Málmsteypunni Hellu áratugum saman og nýtt í fjölbreytta framleiðslu á borð við vegvísa og bekki. 

Álið hefur leikið aðalhlutverk í endurvinnslubyltingu síðustu áratuga. Þau álfyrirtæki sem starfa á Íslandi hafa beitt sér fyrir endurvinnslu, m.a. með þjóðarátaki sem fólst í söfnun og endurvinnslu sprittkerta hér á landi og stuðningi við söfnun áls á fiskideginum mikla á Dalvík. Álver á Íslandi eru í evrópsku álsamtökunum sem styðja við Every Can Counts endurvinnsluátakið í Evrópu. 

Á heimasíðu Samáls má fræðast nánar um endurvinnslu áls og lesa skýrslu Evrópsku álsamtakanna um endurvinnslu áls, vegvísi að sjálfbæru efnahagslífi. 

Hér má lesa úttekt Aluminium Association, bandarísku álsamtakanna, á sérstöðu áls hvað endurvinnslu varðar og einnig úttekt með samanburði við aðra málma. Þar kemur m.a. fram að ekkert efni skilar meiri verðmætum við endurvinnslu og að endurvinnsla einnar áldósar nægir til að hlusta á heila plötu á iPod.  

Sjá einnig