Sóknarfæri í loftslagsmálum

Óhætt er að segja að áliðnaður í heiminum standi á krossgötum. En kannski er það alltaf þannig þar sem gróska er í atvinnulífi og lífsmark með fyrirtækjum. Þá er stöðug hreyfing og framþróun. Sífellt leitað leiða til að sjá fyrir og mæta áskorunum í umhverfinu.

Engum blöðum er um það að fletta að loftslagsváin er stærsta og mest krefjandi viðfangsefni samtímans og verkefni okkar allra er að sporna gegn henni á næstu áratugum. Til þess að leggja sitt af mörkum þurfa álver að umbylta sínum framleiðsluaðferðum, hvort sem það er á sviði kolefnislausra skauta eða föngunar kolefnis, en einnig þarf að tryggja samkeppnishæf og stöðug rekstrarskilyrði til langs tíma.

Sóknarfærin eru hvergi meiri en hér á landi, þar sem forskotið er nú þegar mikið í loftslagsmálum með nýtingu endurnýjanlegrar orku til álframleiðslu. 

Álverð hækkað um 70%

Nú þegar hriktir í stoðum hagkerfa heimsins vegna heimsfaraldurs er eftirtektarvert hversu vel áliðnaður virðist vera að koma undan vetri. Munar þar mestu um að álverð hefur hækkað um 70% frá því það var lægst í fyrra.

Eftirspurn áls dróst að vísu saman um 3% í fyrra og nam um 63 milljónum tonna, en það var nær helmingi minni samdráttur en búist hafði verið við. Spár gera svo ráð fyrir að eftirspurnin nái sér aftur á strik á þessu ári, verði um 69 milljónir tonna og fari á öruggri siglingu yfir 70 milljóna markið á næsta ári.

Öflugt viðbragð álmarkaða má að mestu rekja til Kína. Þegar álmarkaðir hrundu víða um heim í fyrra, þá söfnuðust upp birgðir upp á þrjár milljónir tonna. En um þriðjungur af birgðasöfnuninni fór í að mæta umframeftirspurn í Kína og útlit er fyrir að áfram verði umframeftirspurn á þessu ári í Kína. Er það þá fjórða árið í röð sem eftirspurn er meiri eða helst í hendur við framboð þar í landi. Það munar um minna, því Kína framleiðir um helming af öllu frumframleiddu áli í heiminum. 

Iðnaður sterkur í kreppum

Það er gömul saga og ný að þróuðustu iðnríkin hafa löngum komist betur frá kreppum en aðrar þjóðir. Ekki þarf annað en að líta til Þýskalands til að átta sig á því. Hér á landi hefur það verið segin saga að þegar þrengir að í efnahagslífinu, þá hefur áliðnaðurinn staðið styrkum fótum og skilað mikilvægum gjaldeyristekjum inn í íslenskt þjóðarbú. Hækkandi álverð hefur einnig jákvæð áhrif á afkomu orkufyrirtækja hér á landi, sem eru að nær öllu leyti í opinberri eigu. Með hækkandi álverði skapast einnig svigrúm til fjárfestinga, eins og sýndi sig á árunum eftir hrun þegar Isal réðst í 60 milljarða fjárfestingarverkefni í Straumsvík. En til þess að gera fyrirtækjum kleift að ráðast í svo stórar fjárfestingar blasir við að rekstrarskilyrðin þurfa að vera stöðug og samkeppnishæf til langs tíma.

Uppbygging álframleiðslu hér á landi frá því álverið í Straumsvík hóf starfsemi fyrir rúmri hálfri öld markast af stöðugri framþróun og fjárfestingum. Sú uppbygging var forsendan fyrir Búrfellsvirkjun og stofnun Landsvirkjunar, sem þýddi að Íslendingar gátu byggt upp öflugt raforkukerfi í stærri skrefum og með hagkvæmari hætti en ella. Og þessi síðbúna iðnbylting gerði okkur kleift að ráðast í orkuskipti og ýta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa. Erfitt er að ímynda sér íslenskan veruleika án grænna orkugjafa, en þannig var nú veruleikinn samt fyrir fáeinum áratugum.

Sóknarfæri í loftslagsmálum

En verkefninu er síður en svo lokið. Íslensku álverin hafa tekið stór skref í virðisaukandi framleiðslu og horfa til þess að ganga lengra í þeim efnum. Höfuðáhersla er á að draga úr losun frá starfsemi álvera og framleiðsluferlinu. Nú þegar hefur náðst góður árangur á því sviði. Losun CO2 ígilda frá íslenskum álverum hefur dregist saman á hvert framleitt tonn um 75% frá árinu 1990 og mikið lengra verður ekki náð með núverandi framleiðslutækni. Þessu grettistaki var lyft með því að endurnýta þann flúor sem til fellur í framleiðsluferlinu, agaðri kerrekstri og fjárfestingum í nýrri tækni og búnaði. 

En betur má ef duga skal. „Sóknarfæri í loftslagsmálum“ er yfirskrift ársfundar Samáls sem sendur verður út þriðjudaginn 11. maí. Þar verður meðal annars fjallað um leitina að hinum heilaga gral áliðnaðarins, kolefnislausum skautum, en með þeirri tækni myndu álver losa súrefni í stað koldíoxíðs, og aðrar leiðir til að fanga kolefni frá álverum. Einnig verður farið yfir markmið og aðgerðir til að ná kolefnishlutleysi í almennri starfsemi álvera, auk þess sem staða og horfur í áliðnaði hér á landi og á heimsvísu verða til umfjöllunar.

Áliðnaður er ung grein á Íslandi, en nú þegar hefur myndast klasi í kringum álverin sem samanstendur af tugum og hundruðum fyrirtækja og framþróunin er ör. Miklu varðar að skapa áliðnaðinum þau skilyrði að hann haldi áfram vaxa og dafna og skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Til þess þurfum við að leggja ofuráherslu á loftslagsmálin. Þar liggja sóknarfærin.

Pétur Blöndal

framkvæmdastjóri Samáls


Sjá einnig