Uppbygging kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík
Rio Tinto á Íslandi, Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, sagði við það tilefni að góður árangur hefði náðst á undanförnum árum við að draga úr losun frá ISAL og kolefnisfótspor fyrirtækisins væri nú þegar með því lægsta sem þekkist í áliðnaði.
„Ef metnaðarfull markmið okkar um kolefnishlutleysi 2040 eiga að nást þarf hins vegar að stíga afgerandi skref. Föngun og förgun CO2 með Carbfix tækninni í Coda Terminal er einn slíkur möguleiki og þess vegna skrifaði Rio Tinto undir samstarfsyfirlýsingu við Carbfix í fyrra. Tilraunir eru þegar hafnar við föngun á CO2 frá starfseminni og stefnum við ótrauð á að verða fyrsta álverið í heiminum sem nær að fanga og farga varanlega hluta af kolefnislosun sinni.”
Álframleiðsla og samkeppnishæfni iðnaðarins á Íslandi voru í brennidepli á ársfundi Samáls sem haldinn var á Hilton Nordica þann 27. maí sl. Þar lýsti Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra yfir eindregnum stuðningi við íslenska álframleiðslu sem hluta af grænni framtíðarsýn fyrir hagkerfið.
Fyrirtækin í áliðnaði á Íslandi eru þrjú og þar starfa liðlega 2.000 manns. Samkvæmt mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má gera ráð fyrir að tæplega 5.000 manns hafi framfæri sitt af álframleiðslu á Íslandi með beinum hætti eða um 2,4% af vinnuafli.
Álver á Íslandi keyptu vörur og þjónustu fyrir um 61 milljarð árið 2022 og er þá raforka undanskilin. Á síðustu árum hafa þessi viðskipti að jafnaði numið um 22 til 40 milljörðum á ári. Það skapar hundruðum íslenskra fyrirtækja rekstrargrundvöll. Álver þurfa stöðugar fjárfestingar til að viðhalda samkeppnishæfni sinni og fjárfestu álverin fyrir yfir 277 milljarða á árunum 2011 til 2021.