Af álveri og losun

Nokkrar umræður hafa spunnist um álver og losun eftir að fram kom að framlag Íslands til loftslagsmála væri meira með einu álveri en allri loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þessi fullyrðing er þó ekkert ný af nálinni, enda þarf ekki annað en að skoða tölur sem liggja fyrir til að afla rökstuðnings fyrir því. Hér verður byggt á nýlegum fræðigreinum um þetta efni.

Þar með er ekki gert lítið úr mikilvægi þess að draga enn frekar úr losun við framleiðslu áls hér á landi. Ekki verður komist mikið lengra með núverandi tækni, enda er losun álvera hvergi minni í heiminum, en mörg þróunarverkefni eru í gangi til að komast alfarið hjá losun vegna framleiðslunnar. Þannig eru öll íslensku álverin að vinna að þróun kolefnislausra skauta og einnig er til skoðunar föngun og binding koldíoxíðs eða CO2. 

 

Í hverju felst losunin?

Ál er framleitt úr súráli með rafgreiningu. Forskautin sem notuð eru við framleiðsluna eru úr kolefni, sem binst súrefni frá framleiðslunni og myndar um 1.5 kg af CO2 fyrir hvert kg af áli sem framleitt er. Að meðaltali bætast við 0.3 kg vegna PFC losunar, en hún er töluvert minni frá íslenskum álverum. Við súrálsframleiðslu frá báxíti losnar að meðaltali 1.5 kg af CO2. Losun vegna flutnings á hráefnum og afurðum er hinsvegar hlutfallslega lítil miðað við aðra losun vegna framleiðslunnar.

Þegar fjallað er um losun frá álframleiðslu munar þó langmest um orkuvinnsluna, en að meðaltali er losunin á heimsvísu um 10.3 kg af CO2 á hvert kíló af áli. Yfir helmingur álframleiðslunnar er í Kína og ef einungis er horft til orkunnar er losunin þar um 13,4 kg, en um 90% hennar kemur frá kolaorkuverum. Þungamiðja álframleiðslu hefur flust til Asíu síðustu tvo áratugi og við það hefur kolefnisfótsporið vaxið um 3 kg af CO2 á hvert tonn af áli eða úr 11,4 kg upp í 14,3 kg.

Ef einungis er horft til þessarar aukningar samsvarar hún tvöfaldri losun Íslands á hvert tonn af áli, en losun vegna orkuvinnslu er eðli málsins samkvæmt hverfandi hér á landi.

 

Þróunarverkefni og endurvinnsla

Álið hefur þann dýrmæta eiginleika að hagkvæmt er og loftslagsvænt að endurvinna það, enda þarf til þess aðeins um 5% af orkunni sem þurfti til að framleiða það upphaflega. Fyrir vikið dregur endurvinnsla úr kolefnisfótspori áls, auk þess sem endurvinna má álið aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum. Notkun áls fellur því vel að hringrásarhagkerfinu.

Í dag skilar um 70-80% af notuðu áli sér til endurvinnslu og nægir það til að uppfylla um 23% af eftirspurninni, sem er um 86 milljónir tonna á ári. Hér er horft framhjá brotamálmi sem fellur til við framleiðsluna og er endurnýttur í ferlinu og fer þannig hring í álverinu sjálfu.

Ál er léttur en sterkur málmur og því gjarnan notað í farartæki til að draga úr orkuþörf þeirra og í byggingariðnaði þar sem það einangrar vel og er því oft í notkun í áratugi. Þar sem notkun áls er þannig hluti af lausninni í loftslagsmálum fer eftirspurnin vaxandi og ekki útlit fyrir annað en að svo verði næstu áratugina. Endurunnið ál er stækkandi markaður, en jafnvel þó að endurvinnsluhlutfallið hækki stöðugt, þá er það langt frá því að anna þörfinni.

 

Loftslagsáhrif álvers

En hver eru loftslagsáhrif álvers á Íslandi. Tökum sem dæmi álver sem framleiðir 360 þúsund tonn af áli ár hvert. Sé það rekið á Íslandi sparar það heiminum 3.7 milljóna tonna losun af CO2 ár hvert, samanborið við heimsmeðaltalið, en 4.8 milljónir tonna ef við berum það saman við ál sem framleitt er í Kína.

Nú er heildarlosun á ábyrgð íslenskra stjórnvalda um 2,9 milljónir tonna ár hvert, en það er sú losun sem loftslagsáætlunin nær til. Eitt álver, sem rekið er á Íslandi, sparar því umheiminum meiri losun en öll losun sem telst á ábyrgð íslenska ríkisins. Víst er verkefnið að draga enn frekar úr losun íslenskra álvera, en þetta sýnir vel hversu mikilvæg orkuskipti í orkusæknum iðnaði eru á heimsvísu.

Tæpar tvær milljónir tonna af losun hér á landi, þar með talið frá álverum, falla svo undir evrópska ETS viðskiptakerfið með losunarheimildir og teljast ekki á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Það er samevrópskur pottur með metnaðarfullum markmiðum um að draga úr losun og hefur verð á losunarheimildum tólffaldast frá árinu 2017. Miðað við verðið í júlí greiða álver á Íslandi fyrir sína losun yfir tvo milljarða á ári fyrir losunarheimildir eða vel rúma milljón á ári á hvern starfsmann. Ljóst er því að hvatinn er til staðar innan ETS-kerfisins til að draga úr losun.

 

Hvað þýðir þetta?

Þetta þýðir að orkusækinn alþjóðlegur iðnaður á borð við ál, kísil, gagnver og rafeldsneyti með íslenskri endurnýjanlegri orku er áhrifarík aðgerð gegn loftslagsbreytingum, enda er loftslagsvandinn sem við er að glíma hnattrænn en ekki staðbundinn. Ljóst er að jafnvægið er viðkvæmt milli orkunýtingar og náttúruverndar og eitt helsta verkefni stjórnmálanna að leiða fram farsæla niðurstöðu í þeim efnum sem sátt er um. Hvað sem því líður, er mikilvægt að draga fram þá ljósu staðreynd, að það væri mjög vont loftslagsmál að loka álveri á Íslandi.

 

Heimildir

Tölurnar í þessari grein koma úr greininni „Aluminum production in the times of climate change: The global challenge to reduce the carbon footprint and prevent carbon leakage“ sem birtist í Journal of Metallurgy og „Reducing the Carbon Footprint: Aluminium Smelting with Changing Energy Systems and the Risk of Carbon Leakage“ úr Light Metals, eftir G Saevarsdottir, H Kvande, BJ Welch, en báðar birtust á árinu 2020. Upplýsingar um álhringrásina og endurvinnslu má finna á vefsíðu World Aluminium.

 

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 1. september. 

Pétur Blöndal

framkvæmdastjóri Samáls, Samtaka álframleiðenda

 


Sjá einnig