Er það ekki bara jákvætt?

Sumum finnst það skjóta skökku við að heimilin nýti einungis 5% af þeirri orku sem virkjuð er á Íslandi, en að orkusækinn iðnaður nýti hátt í 80% af orkunni. Ekki þarf að staldra lengi við þá gagnrýni til að átta sig á hversu öfugsnúin hún er.

Í fyrsta lagi liggur beint við að spyrja, hvort það teljist ekki þvert á móti styrkur fyrir íslenskt efnahagslíf, að við búum svo vel að hafa byggt upp eitt öflugasta orkukerfi á byggðu bóli, fámenn þjóð í strjálbýlu landi? Fyrir vikið njóta heimilin meira afhendingaröryggis raforku á einu lægsta verði sem þekkist – og má segja að það sé eitt form arðgreiðslu til þjóðarinnar. Byggst hafa upp öflug orkufyrirtæki, að mestu í opinberri eigu, og orkan er alfarið nýtt hér á landi til að skapa verðmæti og eftirsóknarverð störf.

Hver borðar allan fiskinn?

Svo blasir við hversu undarleg gagnrýnin er þegar hún er heimfærð yfir á aðrar atvinnugreinar.

Einu sinni las ég að Íslendingar ættu heimsmet í fiskáti, en miðað við þær tölur snæddu þeir þó ekki nema um 5% af þeim afla sem veiðist við Íslandsstrendur. Og mega hafa sig alla við! Er það ekki bara hið besta mál að margfalt fleiri heimili á erlendri grundu njóti góðs af þessari næringarríku fæðu?

Við státum af grósku í tölvuleikjaiðnaði, en varla er nema brot af þeim sem spila tölvuleikina búsett á Íslandi. Er það sérstakt áhyggjuefni? Er það ekki einmitt til marks um heilbrigt atvinnulíf ef íslensk fyrirtæki eru samkeppnishæf á alþjóðamarkaði með sínar vörur og þjónustu? Skapar það ekki dýrmætar gjaldeyristekjur sem standa undir velferðinni á Íslandi? Spretta ekki af því vaxtartækifæri og spennandi störf fyrir unga fólkið okkar?

Fjórðungur útflutningstekna

Löngum hefur einkennt íslenskt hagkerfi að það er útflutningsdrifið og óhætt er að segja að bylting hafi orðið í lífsgæðum hér á landi með uppbyggingu orkusækins iðnaðar. Það segir sína sögu að landsframleiðsla á mann hefur aukist 50% meira hér á landi en í öðrum Evrópulöndum á síðustu 50 árum eða frá því Búrfellsvirkjun var reist og álverið í Straumsvík hóf framleiðslu. Orkusækinn iðnaður stendur fyrst og fremst saman af álverum, kísilverum og gagnaverum og munar þar mest um álið, en það segir sína sögu að álverin þrjú á Íslandi skiluðu um fjórðungi útflutningstekna þjóðarbúsins í fyrra.

Drjúgur hluti þeirra gjaldeyristekna streymir beint inn í hagkerfið í formi orkukaupa, kaupa á vörum og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja, launum til um 1.500 starfsmanna og opinberum gjöldum. Þannig nam innlendur kostnaður álvera hátt í 100 milljörðum árið 2020 og gera má ráð fyrir að sú tala eigi eftir að fara hækkandi með bættri afkomu, auk þess sem ýmis fjárfestingarverkefni eru í farvatninu.

Arðgreiðslur og nýr spítali

Ekki aðeins eru álverin stærstu viðskiptavinir íslenskra orkufyrirtækja heldur er orkuverðið að hluta tengt álverði og njóta þau því góðs af hækkun álverðs upp á síðkastið, eins og fram kom í grein Rafnars Lárussonar, fjármálastjóra Landsvirkjunar, á Vísi.is í liðinni viku. Grunnrekstur Landsvirkjunar skilaði hátt í 30 milljarða hagnaði í fyrra og hljóðaði arðgreiðslan til ríkisins upp á 15 milljarða.

Í máli Rafnars kom fram að hærri tekjur, meiri hagnaður og lægri skuldir þýddu að rekstur Landsvirkjunar gæti skilað arðgreiðslum upp á 10 til 20 milljarða á ári til framtíðar. „Þetta er há tala. 15 milljarðar. Til að setja hana í samhengi, þá er vert að benda á að ef nýr Landspítali kostar um 100 milljarða kr. og tekur um 7-10 ár í byggingu, þá geta arðgreiðslurnar frá Landsvirkjun staðið einar undir byggingu hans.“

Minnsta kolefnisfótsporið

Já, það er staðreynd að orkusækinn iðnaður notar drjúgan hluta orkunnar og margfalt meira en heimilin í landinu. En hafa ber í huga, að það er ekki sjálfgefið að orkufyrirtækin séu rekin með hagnaði og varðar miklu að eiga stóra og trausta viðskiptavini sem horfa til langs tíma og nýta orkuna jafnt og þétt allan sólarhringinn án þess að misbrestur verði á.

Og er það ekki bara jákvætt, að það skapi verðmæti hér á landi og stuðli að lífskjarasókn að framleiða ál sem hefur samkvæmt alþjóðlega greiningarfyrirtækinu CRU minnsta kolefnisfótspor sem þekkist á heimsvísu?

Pétur Blöndal

framkvæmdastjóri Samáls

(Grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. apríl 2022)


Sjá einnig