Framlag áliðnaðar til landsframleiðslu um 90 milljarðar á ári

Beint og óbeint framlag áliðnaðar til vergrar landsframleiðslu er um 90 milljarðar á ári samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Samál, samtök álframleiðenda, um framlag áliðnaðarins til þjóðarbúsins.

Samál gerði í febrúar 2011 samning við Hagfræðistofnun um að stofnunin tæki að sér að rannsaka framlag áliðnaðar til þjóðarbúsins. Verkið er nokkuð viðamikið og er því unnið í nokkrum áföngum. Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir nokkrum niðurstöðum úr fyrsta áfanga þessa verks, þ.e. mati á beinu og óbeinu framlagi áliðnaðar til landsframleiðslu.

Meginniðurstöður skýrslunnar sem nú kemur út, eru sem hér segir:

  • Beint og óbeint framlag áliðnaðar til vergrar landsframleiðslu mældist u.þ.b. 85 til 96 milljarðar króna að jafnaði árin 2008-10 á verðlagi ársins 2010. Þetta samsvarar u.þ.b. 6-6,8% af vergri landsframleiðslu. Í þessu mati er ekki er tekið tillit til eftirspurnaráhrifa af tekjum sem myndast í álframleiðslu.
  • Til samanburðar hefur beint og óbeint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslunnar án eftirspurnaráhrifa á árinu 2010 verið áætlað um 17,5%.
  • Af ofangreindu framlagi áliðnaðar er óbeint framlag, þ.e. virðisauki sem myndast í tengdri starfsemi, á bilinu 40-51 milljarðar króna. Það svarar til allt að 3,6% af landsframleiðslu.
  • Hlutdeild útflutnings á álafurðum í vöruútflutningi landsmanna hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár og er nú í námunda við 40%. Er það svipað hlutfall af vöruútflutningi og útflutningur sjávarafurða.
  • Ætla má að um 4.800 manns starfi í áliðnaði og tengdum greinum eða um 2,7% vinnuaflsins. Af þessum fjölda starfa eru um 2.000 í álframleiðslu beint en um 2.800 í tengdum greinum.

Sveinn Agnarsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar og Ragnar Árnason, prófessor, höfðu yfirumsjón með verkinu sem að mestu var unnið af hagfræðingnum Önnu Guðrúnu Ragnarsdóttur.

Skýrsluna má nálgast hér

Sjá einnig