Mörg fróðleg erindi voru haldin fyrir fullu húsi á ársfundi Samáls.
Mörg fróðleg erindi voru haldin fyrir fullu húsi á ársfundi Samáls.

Málmurinn sem á ótal líf Ársfundur Samáls 2017

„Málmurinn sem á ótal líf“ var yfirskrift ársfundar Samáls 2017 sem haldinn var í Kaldalóni í Hörpu að morgni 11. maí. Fjallað var um mikilvægi áliðnaðar fyrir efnahagslífið á Íslandi og umfang endurvinnslu áls í hnattrænu samhengi. Hér má sjá svipmyndir frá ársfundinum

Samhliða ársfundinum var sýning á nýjustu árgerð Jaguar, en ál hefur löngum verið í öndvegi við framleiðslu þeirra bíla og hóf BL nýverið sölu á þeim. Þá var Minkurinn til sýnis, smáhjólhýsi sem er íslensk hönnun og til stendur að framleiða úr áli.

Innlend útgjöld námu tæpum 80 milljörðum

„Í raun er ótrúlegt hugsa til þess hversu stórt efnahagslegt spor álfyrirtækjana er,“ sagði Rannveig Rist stjórnarformaður Samáls í upphafi ársfundarins. 

„Alls námu útflutningsverðmæti frá íslenskum álverum 181 milljarði árið 2016 sem er reyndar nokkru minna en árið á undan. Sterkt gengi krónunnar hefur neikvæð áhrif á okkur eins og önnur útflutningsfyrirtæki en líka lágt álverð sem tók ekki að hækka fyrr en seint á síðasta ári. Horfur eru betri fyrir þetta ár sem og langtímahorfur.“

Einnig kom fram í máli hennar að innlend útgjöld námu tæpum 80 milljörðum, þar af fóru um 22,5 milljarðar í kaup á vörum af þjónustu af hundruðum fyrirtækja og er þá raforka undanskilin. Raforkukaup námu um 36 milljörðum og er þá tekið mið af samanlagðri raforkunotkun álvera og meðalverði Landsvirkjunar til stóriðju. Hér má sjá ræðu Rannveigar. 

Hver vinnandi hönd skapar meiri verðmæti

„Fyrir fáeinum árum gaf McKinsey út hina frægu skýrslu um hvernig tryggja mætti heilbrigðan vöxt í íslensku efnahagslífi,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra í ávarpi sínu. „Í skýrslunni kom fram að framleiðni vinnuafls í orkugeiranum og í málmframleiðslu var á þeim tíma tvisvar sinnum meiri en í sjávarútvegi og fjármálastarfsemi og fimm sinnum meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum.“

Hún hélt áfram: „Vissulega eru orkugeirinn og málmframleiðsla fyrst og fremst fjármagnsfrekar greinar en ekki sérlega vinnuaflsfrekar. En þetta þýðir engu að síður að það er skynsamleg ráðstöfun á vinnuafli að setja það til verka í þessum atvinnugreinum. Hver vinnandi hönd skapar þarna mun meiri verðmæti en í nánast öllum öðrum atvinnugreinum.“ Hér má sjá erindi Þórdísar Kolbrúnar. 

75% af öllu áli sem framleitt hefur verið enn í notkun

Ál er þeim eiginleika gætt að það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Enda er 75% af öllu því áli sem framleitt hefur verið frá upphafi er enn í notkun. Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi Ron Knapp framkvæmdastjóra International Aluminium Institute. Hér má sjá erindi hans.

Álbílar sem eyða minna og losa minna

Ál fyrir umhverfið, var yfirskrift erindis Ernu Gísladóttur forstjóra BL. Hún lagði mikið upp úr því að ál var lagt til grundvallar við framleiðslu Jaguar, Range Rover og Land Rover, en allar þær bílategundir eru seldar hjá BL. Ál létti bifreiðarnar, sem ylli því að þær væru sparneytnari og losuðu minna af gróðurhúsalofttegundum. En ál var einnig fallegur málmur og merkilegt nokk, þá væri ál sterkt þrátt fyrir léttleikann og kæmi vel út úr árekstraprófunum. Hér má sjá erindi Ernu. 

Losun dregist verulega saman á hvert framleitt tonn

„Álfyrirtæki hafa verið í fararbroddi í umhverfis- og öryggismálum á Íslandi,“ sagði Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs Samtaka iðnaðarins í erindi sínu sem bar yfirskriftina: Leiðin að minni losun. „Verkfæri eins og umhverfisstjórnun og öryggisstjórnun voru fyrst innleidd þar. Önnur fyrirtæki hafa lært mikið af þeim og þekking færst yfir á aðra geira. Við sem vinnum með umhverfis- og öryggismál skynjum einlægan ásetning hjá stjórnendum þessara fyrirtækja að gera vel.“ Fram kom að losun á hvert framleitt tonn hefði dregist verulega saman á undanförnum árum og áratugum og þar hefðu álverin tekið forystu á heimsvísu.  Hér má sjá erindi Bryndísar. 

Minkurinn tenging við náttúruna

Smáhjólhýsið Minkurinn er íslensk hönnun, þar sem ál gegnir mikilvægu hlutverki, að sögn Kolbeins Björnssonar frumkvöðuls. Mink Campers - tenging við náttúruna, var yfirskrift erindis hans og má sjá það hér.

Endurvinnsla áls skapar verðmæti og dregur úr losun

Lokaorðin átti Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls, sem hleypti af stokkunum auglýsingum Samáls sem ætlað er að ýta undir endurvinnslu áls. Á meðal þess sem fram kom í erindi hans var að einungis þurfi um 5% af þeirri orku sem fer í að frumframleiða álið í að endurvinna það. Þar sem það er orkuvinnslan sem losar mest við álframleiðslu, þá sparast ekki aðeins gríðarleg orka og fjármunir við endurvinnslu álsins, heldur dregur hún verulega úr losun. Pétur sagði að Íslendingar skiluðu miklu áli til endurvinnslu, til dæmis færi um 94% allra drykkjardósa úr áli til endurvinnslu. Hér má sjá erindi Péturs. 

Fundarstjóri var Dagmar Ýr Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls. Að venju var boðið upp á morgunverð fyrir ársfund og kaffiveitingar að honum loknum og sköpuðust líflegar umræður.

Sjá einnig