Með frekari vöruþróun eykst verðmætið

Það vill stundum gleymast að áliðnaður á Íslandi er ungur að árum. Rétt rúm hálf öld er síðan álframleiðsla hófst í Straumsvík og einungis 15 ár frá því stærsta álverið, Alcoa Fjarðaál, hóf starfsemi. Á þessum tíma hefur framleiðslan vaxið úr 30 þúsund tonnum í 836 þúsund tonn.

ESegja má að áliðnaðinum sé líkt farið og sjávarútveginum að því leyti að magnið er ekki að breytast um fyrirsjáanlega framtíð, en með frekari vöruþróun eykst verðmætið.

Öll álverin eru komin langt í áframvinnslu áls. Í nýrri framleiðslulínu Norðuráls verða framleiddar virðisaukandi stangir með málmblöndum, en það er fjárfesting upp á 16 milljarða og mun skapa 40 varanleg störf.

Isal réðist í 60 milljarða fjárfestingaverkefni fyrir rúmum áratug og framleiðir nú einvörðungu virðisaukandi stangir með málmblöndum og Alcoa Fjarðaál framleiðir málmblöndur og víra. Það segir sína sögu að ef málmurinn er talinn með sem blandað er við álið, þá bætast 35 þúsund tonn við framleiðsluna, og er hluti af því kísill frá PCC á Bakka.

Erlend fjárfesting mikilvæg

Í Noregi og Kanada er einnig öflugur áliðnaður knúinn með endurnýjanlegri orku. Áliðnaðurinn á sér þó lengri sögu þar og getum við margt af þeim lært. En umsvifin hafa farið jafnt og þétt vaxandi í íslenskum áliðnaði og sést það glöggt á því að álverin keyptu í fyrra innlendar vörur og þjónustu fyrir rúma 35 milljarða af hundruðum fyrirtækja. Auk þess má áætla að kaup álveranna á raforku hafi numið um 60 milljörðum í fyrra, en alls nam innlendur kostnaður 123 milljörðum.

Hér á landi er gróskumikill álklasi sem stofnaður var árið 2015, en hátt í 40 fyrirtæki taka þátt í starfi klasans og hefur áhersla einkum verið á rannsóknir og þróun, en klasinn er til húsa í Tæknisetri. Þar hafa nokkrir álsprotar skotið rótum og aðstaðan verður æ betri og sérhæfðari til rannsókna.

Í Kanada er öflugt klasastarf og hefur tekist samstarf við klasana þar, sem vonandi skapar nýja þekkingu og tækifæri.

Íslendingum hættir til að líta með tortryggni til alls sem kemur erlendis frá. Ef til vill er það eðlilegur fylgifiskur þess að búa á eylandi. En staðreyndin er sú, að erlendar fjárfestingar voru aflgjafinn í umbyltingu íslensks atvinnulífs á síðustu öld – mesta framfaraskeiði í sögu þjóðarinnar. Og gildir þá einu hvort litið er til sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar.

Í nýútkominni bók, Lifað með öldinni, bendir Jóhannes Nordal á að Íslendingar hafi ætíð litið mjög til Norðmanna varðandi fyrirmyndir í nýtingu fallvatna, enda hafi skilyrði um margt verið sambærileg. Er hann ræddi virkjanamálin við Erik Brofors, aðalbankastjóra Noregsbanka, vorið 1961 fékk hann að heyra hve mikla þýðingu erlent fjármagn hefði haft fyrir uppbyggingu iðnaðar í Noregi. Í kjölfarið veittu Norðmenn mikilvæga ráðgjöf um frekari skref í virkjunum og stóriðju, en með þeirri uppbyggingu hófst síðbúin iðnbylting á Íslandi.

Orkuskipti stóra verkefnið

Óhætt er að segja, að Íslendingar séu að uppskera. Orkufyrirtækin hafa verið að skila metafkomu. Ef horft er til Landsvirkjunar fara arðgreiðslur vaxandi og var upplýsandi að lesa orð Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, þegar tilkynnt var um sex mánaða uppgjör fyrirtækisins í sumar.

„Rekstrarniðurstaða fyrri hluta ársins var betri en nokkru sinni fyrr í sögu Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hækkaði um tvo-þriðju miðað við sama tíma í fyrra og nam rúmum 22 milljörðum króna. Þessa hækkun má einkum rekja til hækkunar á raforkuverði til stórnotenda ... Um leið var meðalverð til stórnotenda án flutnings hærra en nokkru sinni áður á fyrri árshelmingi, eða 42,1 dalur á megavattstund. Þetta má m.a. rekja til endursamninga undanfarinna ára, sem tryggt hafa að flestir viðskiptavinir Landsvirkjunar borga verð sem er sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.“

Þarna er ótalinn sá ávinningur sem felst í því að allur iðnaður á Íslandi sækir afl sitt meira og minna í græna orku.

Á heimsvísu eru orkuskipti stóra verkefnið í loftslagsmálum. Þess vegna er mikilvægt að staðsetja orkusækna framleiðslu fyrir heimsmarkað nálægt endurnýjanlegri orku. Þar leggja Íslendingar sitt af mörkum.

Pétur Blöndal

framkvæmdastjóri Samáls

Pistillinn birtist fyrst í tímaritinu Áramót, sem kom út þann 29. desember.

Sjá einnig