Straumhvörf í íslenskum áliðnaði

Algjör straumhvörf hafa orðið í áliðnaði með hækkun á álverðs á heimsmarkaði og skilar það sér beint inn í íslenskan þjóðarbúskap, m.a. með bættri afkomu og vaxandi umsvifum þeirra þriggja álvera sem hér starfa og auknum tekjum orkufyrirtækja vegna tengingar við álverð. Enn sýnir það sig að þegar vel gengur í áliðnaði þá hefur það mjög jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf.

Á liðnu ári var óvissu eytt með endurnýjun raforkusamninga hjá Isal og Norðuráli og gefið var út nýtt starfsleyfi fyrir álverið í Straumsvík til ársins 2037. Það gefur svo augaleið að sú staða sem upp er komin í bættri afkomu og samkeppnishæfni álvera gefur tilefni til að skoða vandlega hvort ekki séu tækifæri til frekari uppbyggingar, framþróunar og fjárfestinga.

Til marks um það tilkynnti Norðurál 16 milljarða fjárfestingu í nýjum steypuskála í haust, en með því skapast tugir starfa, stigið er lengra í virðiskeðjunni með verðmætari afurðum, auk þess sem dregið er úr orkunotkun í framleiðsluferlinu og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Það er auðvitað innspýting fyrir þann öfluga klasa sem myndast hefur í kringum álverin þegar ráðist er í slík fjárfestingarverkefni, en á hverju ári kaupa álverin vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja fyrir tugi milljarða og er þá raforka undanskilin.

Þegar horft er fram á við liggja sóknarfærin í loftslagsmálum fyrir íslenskan áliðnað. Íslensku álverin skrifuðu undir viljayfirlýsingu með íslenskum stjórnvöldum árið 2019 um að stefna að kolefnishlutleysi árið 2040. Hér á landi er grunnurinn traustur fyrir sókn í loftslagsmálum, þar sem álframleiðsla losar hvergi minna en á Íslandi. Þannig hefur losun á hvert framleitt tonn dregist saman um 75% hér á landi frá árinu 1990, en það hefur m.a. náðst fram með fjárfestingum í bættu framleiðsluferli og endurnýtingu flúors.

Mest munar þó um að álið er framleitt með endurnýjanlegri orku, en á heimsvísu er það orkuvinnslan sem losar mest þegar ál er framleitt. Losun við framleiðslu áls hér á landi er fjórum sinnum minni en að jafnaði í heiminum eða um fjögur tonn af koldíoxíði á tonn af áli. Meðaltalið er 18 tonn af koldíoxíði fyrir hvert tonn af áli en í Kína fer koldíoxíðmagnið í 20 tonn þegar álverin eru knúin með orku úr kolum.

Margvísleg þróunarverkefni eru á borðinu hjá öllum álverunum til að draga enn frekar úr losun. Ljóst er að tækifærin eru fyrir hendi með öflugum áliðnaði hér á landi til að verða í fremstu röð á þessu sviði. Nokkur verkefni lúta að tækniþróun í föngun og niðurdælingu eða endurnýtingu koldíoxíðs, m.a. í samstarfi við Carbfix. Það var mikilvægur áfangi þegar Rio Tinto skrifaði undir samning við Carbfix á haustdögum um föngun og förgun kolefnis frá álveri Isal í Straumsvík. Í því fólst einnig að leitað yrði leiða til að nýta Carbfix-aðferðina til að draga úr losun frá starfsemi Rio Tinto á heimsvísu. Þá vinna álver hér á landi að þróun á kolefnislausum skautum, en ef sú tækni verður að veruleika þá framleiða álver súrefni en ekki koldíoxíð.

Fleiri verkefni eru á borðinu, m.a. hjá sprotafyrirtækjum innan Álklasans sem er til húsa í nýstofnuðu Tæknisetri og fagnaðarefni að vísir sé að myndast að öflugu rannsóknarsetri í áliðnaði hér á landi.

Pétur Blöndal

framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 29. desember


Sjá einnig