Skilar orkusala til álvera arðsemi?

Af heildarútflutningi álvera á Íslandi árið 2022 urðu um 174 milljarðar eftir í landinu í formi innlends kostnaðar, en í heild námu útflutningstekjur tæpum 400 milljörðum. Þessum fjármunum verja álverin meðal annars til kaupa á raforku, innlendum vörum og þjónustu og til greiðslu launa og opinberra gjalda á Íslandi. 

Nokkuð hefur verið um það rætt hvort orkusala til álvera skili arðsemi. Tekjur raforkukerfisins af áliðnaði voru 85 milljarðar króna árið 2021, miðað við meðalverð Landsvirkjunar til iðnaðar. Áliðnaðurinn kaupir alls um 12,4 TWst á ári eða sem svarar tæpum 65-70% af allri raforkunotkun hér á landi. Hér má sjá hvernig orkunotkun skiptist á Íslandi árið 2019 skv. gögnum orkustofnunar:

Uppbygging raforkukerfisins á Íslandi hefur haldist í hendur við uppbyggingu orkuiðnaðar. Íslendingar eiga nú eitt öflugasta og hagkvæmasta raforkukerfi í heiminum, leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum með endurnýjanlegri orku og heimilin uppskera eitt lægsta verð sem þekkist á byggðu bóli. Það er ekki sjálfgefið í svo fámennu og strjálbýlu landi fjarri mörkuðum. Í samræmi við orkustefnu er Ísland vel í stakk búið að njóta þjóðhagslegs ávinnings, stuðla að verðmætasköpun í atvinnulífinu og bjóða samkeppnishæft orkuverð.

Eigið fé fimm stærstu orkufyrirtækjanna hér á landi óx úr 86 milljörðum árið 1999 í 309 milljarða króna árið 2010. Það segir sína sögu um þau verðmæti sem orðið hafa til í orkufyrirtækjum á Íslandi. Á meðfylgjandi mynd má sjá vöxt eiginfjár stærstu orkufyrirtækja landsins frá árinu 2006 til 2020, á verðlagi hvers árs.

Það segir ekki alla söguna um eignamyndun orkufyrirtækja, því vatnsaflsvirkjanir eru í bókhaldinu afskrifaðar á 60 árum. Líftími virkjananna er hinsvegar mun lengri og geta þær starfað í 100 ár og þess vegna umtalsvert lengur. Þar myndast því dulin eign, samanber viðtal við Hörð Arnarson forstjóra Landsvirkjunar á Vísi.is í október 2010. 

Fjárhagsstaða Landsvirkjunar er sterk, eins og fram kemur hjá Herði í viðtali í Morgunblaðinu vorið 2015. 

„Það var vitað mál þegar farið var í stórframkvæmdirnar fyrir austan að það myndi taka tíma að greiða niður lánin en það hefur gengið í samræmi við væntingar að lækka skuldirnar. Jafnvel betur. Við höfum lækkað skuldir um rúma áttatíu milljarða á síðustu fimm árum, samhliða því að byggja nýjar virkjanir eins og Búðarháls. Um leið og skuldir lækka verða til meiri peningar í fyrirtækjum vegna minni vaxtagreiðslna og fjárhagslega hefur Landsvirkjun verið að þróast vel. Af þeim sökum verður fljótlega hægt að fara að greiða aukinn arð til eigenda fyrirtækisins, íslensku þjóðarinnar. Þessar greiðslur hafa numið einum og hálfum milljarði á ári undanfarin fimm ár en eftir tvö til þrjú ár ættu þær að geta aukist og orðið á nokkrum árum tíu til tuttugu milljarðar króna á ári hverju.“ 

Á ársfundi Samáls vorið 2015 gerði Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls og þáverandi stjórnarformaður Samáls, að umtalsefni gríðarlega verðmætasköpun hjá íslenskum orkufyrirtækjum. Miðað við markaðsvirði og aflahlutdeild eina skráða sjávarútvegsfyrirtækisins, þá mætti lauslega áætla að verðmæti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja væri um 600 milljarðar. Ef horft væri til orkufyrirtækja væru þau um 500 til 800 milljarða virði. Þau væru hinsvegar að 95% hluta í eigu ríkis og borgar. Ragnar dró fram að innan fárra ára yrði Landsvirkjun fært að greiða yfir 30 milljarða á hverju ári í arð til íslensku þjóðarinnar, eins og lesa má um í frétt Viðskiptablaðsins.

Jón Þór Sturluson hagfræðingur fer yfir afkomu Landsvirkjunar og þjóðhagsleg áhrif stóriðju í 40 ára afmælisriti Landsvirkjunar sem kom út árið 2005.

Hann bendir á að afkoma Landsvirkjunar hafi á köflum verið talsvert lakari en menn væntu í aðdraganda stofnunar fyrirtækisins og segir að fyrir því séu þrjár meginorsakir: „Misræmi milli framboðs og eftirspurnar, ójafnvægi í gengisbindingu langtímalána og tekna, og verðlagshöft.“ Ekkert af því má rekja til stóriðju sérstaklega. Að teknu tilliti til tímasetningar eigendaframlaga, arðgreiðslna og metins virðis Landsvirkjunar reiknar Jón Þór út að arðsemi þess fjár sem eigendur hafi bundið í fyrirtækinu sé á bilinu 5,1 til 7,4%.

En það er ekki eini þjóðhagslegi ávinningurinn, að mati Jóns Þórs. „Uppbygging stóriðju og tengdra orkumannvirkja snertir íslenska hagsmuni með margs konar öðrum hætti en þeim sem kemur fram í rekstri Landsvirkjunar,“ skrifar hann. „Nefna má vinnulaun og skatttekjur, umfram það sem annars hefði orðið; virðisauka í öðrum atvinnugreinum, vegna sölu á aðföngum hvers konar; lægra orkuverð en ella vegna stærðarhagkvæmni í virkjun vatnsafls sem ekki myndi nýtast án samhliða sölu til stóriðju; jákvæð hagstjórnaráhrif, ef vel tekst til með tímasetningar framkvæmda, og síðast en ekki síst fjölþættingu frumframleiðslu í landinu.“

Sjá einnig