Rannveig Rist á stoðfótum frá Össuri.
Rannveig Rist á stoðfótum frá Össuri.

Mikil verðmætasköpun í íslenskum orkuiðnaði

Íslensk álver keyptu vörur og þjónustu fyrir 25 milljarða í fyrra af yfir 700 innlendum fyrirtækjum. Álverin framleiddu 850 þúsund tonn af áli og alls námu útflutningsverðmætin 227 milljörðum. Þetta kom fram í máli Ragnars Guðmundssonar stjórnarformanns Samáls, Samtaka álframleiðenda, á ársfundi samtakanna þriðjudaginn 28. febrúar. Þá nema innlend útgjöld álvera á Íslandi um 80 milljörðum.

Hér má sjá samantekt frá ársfundi Samáls.  

Forsendan öflugir grunnatvinnuvegir

Ragnar gerði að umtalsefni gríðarlega verðmætasköpun í íslenskum orkuiðnaði. Hann sagði að miðað við markaðsvirði og aflahlutdeild eina skráða sjávarútvegsfyrirtækisins, þá mætti lauslega áætla að verðmæti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja væri um 600 milljarðar. Ef horft væri til orkufyrirtækja væru þau um 500 til 800 milljarða virði. Þau væru hinsvegar að 95% hluta í eigu ríkis og borgar. Ragnar dró fram að innan fárra ára yrði Landsvirkjun fært að greiða yfir 30 milljarða á hverju ári í arð til íslensku þjóðarinnar.

Ragnar dró fram að sjávarúvegur hefði verið ein helsta stoð gjaldeyrisöflunar fyrir 25 árum, en þá var sjávarútvegur með um 75% af vöruútflutningi frá Íslandi og iðnaður um 20%. Nú stæðu áliðnaður og sjávarútvegur hinsvegar jafnfætis, iðnaður með yfir 50% af vöruútflutningi frá Íslandi en sjávarútvegur rúm 40%. Þá sagði hann jákvætt hversu mikill vöxtur hefði verið í ferðaþjónustu á undanförnum árum.

„Styrkleikar okkar sem samfélags til aukinnar atvinnusóknar og uppbyggingar liggja einkum á þremur sviðum: Sjávarútvegi, ferðamennsku, og grænum orkuiðnaði,“ sagði hann. „Þetta eru meginstoðirnar og uppbygging þeirra getur og á að fara saman. Þetta eru styrkar stoðir sem framþróun, nýsköpun og sprotastarf byggir á. Grunnforsendan er alltaf öflugir grunnatvinnuvegir.“

Hér er upptaka af ræðu Ragnars.  

Framfarir á sviði tækni, vísinda og nýsköpunar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerði einnig að umtalsefni þá miklu uppbyggingu í orkuiðnaði sem orðið hefði á síðustu 50 árum, en þá var Landsvirkjun stofnuð um Búrfellsvirkjun sem reist var samhliða álverinu í Straumsvík. „Ál- og orkuiðnaðurinn hefur á tæpri hálfri öld treyst grundvöll íslensks efnahagslífs svo um munar, gert verðmætasköpunina fjölbreyttari, gert okkur betur kleift að kljást við sveiflur í efnahagslífinu og opnað á frekari tækifæri til framfara á sviði tækni, vísinda og nýsköpunar almennt,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

Hann sagði álfyrirtækin í fremstu röð á sviði öryggis- og umhverfismála og benti á að losun gróðurhúsalofttegunda fyrir hvert framleitt tonn hefði dregist saman um 75% frá 1990. „Álfyrirtækin hafa lagt út í mikla fjárfestingu til að ná þessum árangri og þar gegnir íslenskt hugvit og verkþekking veigamiklu hlutverki.“

Þá sagði Bjarni stofnun álklasans á síðasta ári og aukið samstarf við háskólasamfélagið, til að stuðla að frekari rannsóknum og tækniþróun, mjög jákvætt skref í átt að frekari framþróun í greininni. „Það stuðlar að aukinni framlegð og frekari samkeppnishæfni og mun til langs tíma skila þjóðarbúinu enn frekari ávinningi.“ 

Hér er upptaka af ræðu Bjarna.

Íslenskt ál dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda

Þröstur Guðmundsson PhD og framkvæmdastjóri álsviðs HRV kynnti útreikninga sem sýndu að heildarlosun frá íslenskum álverum væri sexfalt minni en sambærilegra álvera sem reist hefðu verið í Mið-Austurlöndum og knúin væru af gasorku. Þá væri hún tífalt minni á Íslandi en frá álverum sem knúin væru með kolaorku í Kína.

Þröstur benti á að um 70% af öllu áli sem framleitt væri á Íslandi færi í samgöngutæki í Evrópu. Þar sem ál væri léttur málmur, þá drægi það mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum. Sparnaðurinn væri tvöfalt meiri en sem næmi losuninni við frumframleiðslu álsins hér á landi. Ef tekið væri með í myndina að ál má endurvinna nær endalaust og að ál sem færi í samgöngutæki væri nýtt aftur og aftur, þá mætti reikna með að sparnaðurinn í losun væri sextánfaldur á við losunina sem yrði við frumframleiðslu álsins hér á landi.

Hér er upptaka af ræðu Þrastar.

Vöruþróun og rannsóknir í flugvélaframleiðslu

Daniel Goodman markaðsstjóri Alcoa í flugsamgöngum flutti líflegt erindi um sem bar yfirskriftina „Aerospace Aluminium: The Empire Strikes Back“ þar sem hann ræddi framtíð áls í flugi. Fyrir fáeinum árum kynnti flugvélaframleiðandinn Boeing þotuna Dreamliner til sögunnar, en einungis 20% hennar eru úr áli og var hún engu að síður sögð 20% léttari en fyrirrennarar hennar. Töldu sumir að það markaði endalok áls í farþegaflugi.

Þær spár hafa ekki gengið eftir og sagði Goodman ástæðuna tvíþætta, annarsvegar hefðu önnur efni ekki staðið undir væntingum og hinsvegar hefðu álframleiðendur brugðist við með vöruþróun, rannsóknum og nýsköpun, sem ylli því að þotur sem væru að uppistöðu til úr áli væru enn þær léttustu á markaðnum, auk þess sem umsjónar- og rekstrarkostnaður væri lægstur á þeim vélum. Ál yrði því að minnsta kosti um fyrirsjáanlega framtíð sá efniviður sem flugvélaframleiðendur byggðu á.

Hér er upptaka af ræðu Goodmans.

Stoð í áli hjá Össuri

Loks ræddu vöruhönnuðirnir María G. Sveinbjörnsdóttir og Bjarni Andrésson notkun áls í stoðtækjum Össurar, en þar gegnir ál veigamiklu hlutverki, meðal annars vegna léttleika síns og styrkleika. Í erindinu kom fram að Össur notar 80 tonn af áli, sem á ári hérlendis sem svarar til 13,5 km af stöngum. Össur rekur eitt fullkomnasta renniverkstæði á Norðurlöndum á Grjóthálsi og fæturnir frá Össuri hafa verið notaðir í krefjandi aðstæðum, svo sem við klífa Kilimanjaro hæsta fjall Afríku, göngu á Suðurskautinu og brimbrettaiðkun í Hawaii.

Hér er upptaka af ræðu Maríu og Bjarna.

Samhliða ársfundinum sem bar yfirskriftina „Stoð í áli“ var sett upp sýning á stoðtækjum frá Össuri þar sem fundargestir gátu skoðað stoðtæki, auk þess sem þeir gátu prófað að ganga á stoðfótum frá Össuri.

Ólafur Teitur Guðnason framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan var fundarstjóri og kynnti meðal annars myndskeið um hönnun verðlaunagrips í Söngkeppni framhaldsskólanna. Garðar Eyjólfsson hannaði gripinn og er hann búinn til í Málmsteypunni Hellu úr dósum sem safnað var í framhaldsskólum. Það má því segja að framhaldsskólanemar sjálfir hafi lagt til efniviðinn í gripinn, en hátt í 90% af drykkjardósum á Íslandi eru endurunnar.

Sjá einnig