- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Sími: 571 5300
- samal@samal.is
Álverin á Íslandi framleiða ál og álblöndur sem fluttar eru út um allan heim, skapa gjaldeyristekjur, leggja grunn að afkomu hjá hundruðum fyrirtækja og búa til fjölmörg störf. Þess vegna er áliðnaðurinn ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs.
Það er staðreynd að ál er meðal þeirra málma sem mest er endurunninn. Þess vegna er stundum talað um ál sem „grænan málm“. Yfir 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum er enn í notkun. Í Evrópu er endurvinnsluhlutfall drykkjardósa yfir 70% og fer hækkandi – á Íslandi er það um 94%. Fjárhagslegur og umhverfislegur hvati til endurvinnslu áls er mikill, þar sem til þess þarf einungis um 5% af orkunni sem fór í að framleiða það.
Ál framleitt á Íslandi er flutt til fjölmargra landa, einkum í Evrópu. Það er til margra hluta nytsamlegt; íslenskt ál er notað í bifreiðar, til að mynda Audi og Mercedes Benz, felgur, álpappír, lyfjaumbúðir og húsaklæðningar – svo fátt eitt sé nefnt. Hér á landi eru fullunnir álvírar fyrir háspennustrengi. Þá er álið framleitt á Grundartanga sem Málmsteypan á Hellu notar í sína framleiðslu, svo sem rómaðar pönnukökupönnur og fjölbreyttar afurðir fyrir sjávarútveg, orkuiðnað og ferðaþjónustu.
Af heildarútflutningi álvera á Íslandi árið 2021 urðu um 123 milljarðar eftir í gjaldeyristekjum. Þessum fjármunum er meðal annars varið til kaupa á raforku, innlendum vörum og þjónustu og til greiðslu launa og opinberra gjalda á Íslandi. Árið 2015 greiddu álverin um 6 milljarða í skatta og opinber gjöld. 2014 greiddu álfyrirtækin um 7,2 milljarðar króna í skatta og nam skattspor þeirra samtals 11,7 milljörðum króna.
Álver á Íslandi kaupa tæp 66% allrar raforku á Íslandi. Alls greiddu álverin um 62 milljarða fyrir orkuna árið 2021 miðað við uppgefið meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju. Uppbygging raforkukerfis á Íslandi hefur haldist í hendur við uppbyggingu í orkuiðnaði. Íslendingar eiga nú eitt öflugasta raforkukerfi í heiminum sem tryggir heimilum endurnýjanlega orku á einu lægsta verði sem þekkist á byggðu bóli og íslenskum iðnaði samkeppnishæft orkuverð.
Álver á Íslandi keyptu vörur og þjónustu fyrir um 35,3 milljarða árið 2021 og er þá raforka undanskilin. Á síðustu árum hafa þessi viðskipti numið um 22 til 40 milljörðum á ári. Hundruð innlendra fyrirtækja nutu góðs af þessu. Álver þurfa stöðugar fjárfestingar til að viðhalda samkeppnishæfni sinni og fjárfestu álver hér á landi fyrir rúmlega 277 milljarða á tímabilinu 2012-2021.
Framleiðsla áls hófst á Íslandi árið 1969. Síðan þá hefur hlutur áls í vöruútflutningi margfaldast á meðan hlutur sjávarútvegs hefur helmingast. Áliðnaðurinn gegnir lykilhlutverki í vöruútflutningi og hefur þannig breikkað og styrkt grundvöll íslensks efnahagslífs. Hann gerir útflutning fjölbreyttari, sem aftur dregur úr sveiflum í efnahagslífinu og stuðlar að að stöðugra gengi.
Bent hefur verið á að ferðamannaiðnaðurinn hefur þrefaldast frá 2003, þegar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hófust. Víða um heim er jákvætt viðhorf til orkuuppbyggingar á Íslandi og hafa rannsóknir leitt í ljós að ferðamenn hafa meiri áhuga á Íslandi vegna endurnýjanlegra orkugjafa sem hér eru notaðir. Álver hafa lagt ýmsum verkefnum á sviði ferðamála lið og þau hafa markvisst styrkt grunnþjónustu á landsbyggðinni sem nýtist ferðaþjónustunni.
Um 1.480 manns störfuðu hjá álverum á Íslandi árið 2020 og um 407 voru í föstu starfi á vegum verktaka- og þjónustufyrirtækja á álverssvæðum. Samkvæmt Hagfræðistofnun má reikna með að um 4.600 manns hafi framfæri sitt af álframleiðslu með beinum hætti, en það eru rúm 2,4% starfandi fólks í landinu. Álver á Íslandi kaupa vörur og þjónustu fyrir um 24 milljarða ári af hundruðum fyrirtækja, sem nota fjármunina til að stórum hluta til að greiða starfsmönnum laun.
Í framleiðslu áls verður almennt mest losun við orkuvinnsluna. Á Íslandi er eingöngu notuð endurnýjanleg orka við álframleiðslu, sem þýðir að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna álframleiðslu hérlendis er margfalt minni en víðast hvar annars staðar í heiminum. Umhverfisvöktun með álverum á Íslandi er með umfangsmestu umhverfisrannsóknum á Íslandi og leggja öll álverin ríka áherslu á að starfsemin sé í sátt við umhverfið, með lágmörkun umhverfisáhrifa og ábyrgri nýtingu orku og hráefna.
Undanfarin ár og áratugi hefur byggst upp öflugur klasi með hundruðum fyrirtækja og stofnana sem tengjast áliðnaðinum á Íslandi. Álklasinn var stofnaður formlega í júní 2015 og standa að því klasaframtaki á fjórða tug fyrirtækja og stofnana. Á meðal stofnenda eru verkfræðistofur, vélsmiðjur, tæknifyrirtæki, málmsteypur, skipafélög, verktakafyrirtæki, fjármálastofnanir, rannsókna- og menntastofnanir, auk allra álvera á Íslandi.
Öll álverin hafa stefnu í samfélagsábyrgð, þar sem horft er til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og stefnt að því að ná jafnvægi milli umhverfis, efnahags og samfélagslegra þátta til lengri tíma litið. Á hverju ári veita þau háa styrki til samfélagsmála og námu styrkirnir alls 1.104 milljónum króna á tímabilinu 2015 til 2020.
Öll störf í álverum henta bæði körlum og konum. Hlutfall kvenna í álverum á Íslandi er með því hæsta sem þekkist í heiminum og þau hafa öll skýra jafnréttisstefnu. Bæði kynin eiga jafna möguleika til starfsframa og er stuðlað að launajafnrétti, enda varðar jafnrétti veginn að aukinni hagsæld. Árið 2014 fékk Rio Tinto Alcan á Íslandi Hvatningarverðlaun jafnréttismála þegar þau voru veitt í fyrsta skipti.
Öryggismál eru forgangsatriði hjá álverum og endurspeglast sú staðreynd í öllu starfi þeirra. Allt kapp er lagt á að það séu slysa- og tjónalausir vinnustaðir. Stóriðjufyrirtækin hafa af mörgum verið talin í fararbroddi á sviði öryggismála á íslenskum vinnumarkaði og hafa innleitt vinnubrögð sem hafa verið mörgum öðrum til eftirbreytni. Fyrir utan almenn öryggismál á vinnusvæðum er mikið lagt upp úr öflugum forvörnum og fræðslu.
Ársfundur 2023 - Hring eftir hring eftir hring
Ársfundur 2022 - Græn vegferð í áliðnaði
Ársfundur 2021 – Sóknarfæri í loftslagsmálum
Ársfundur 2019 – ál er hluti af lausninni
Ársfundur 2018 – hönnun og endurvinnsla í forgrunni
Ársfundur 2017 – málmurinn sem á ótal líf